154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar lághitaveituna og Njarðvíkurheiði þá eru nýjustu upplýsingar þær að það taki skemmri tíma en hálft ár, þar er rætt um einhverja mánuði en — (GRÓ: Orkumálastjóri sagði hálft ár.) Ég byggi þetta bara á þeim upplýsingum sem fram komu um helgina í stjórnstöð almannavarna þar sem var verið að fara yfir þessar sviðsmyndir. Það er hins vegar ekki svo að það hafi bara verið unnið á einu spori í kringum þessi mál, eins og mér fannst hv. þingmaður gefa til kynna, það er alls ekki þannig. Það sést best á því að það var strax farið í það að tryggja vatnsból. Það hefur verið unnin vinna við að undirbúa þessa lághitaveitu. Það er verið að tryggja nýja kaldavatnslögn úr Svartsengi sem er líka mikilvægt verkefni. Það var auðvitað mjög langt komin vinna við heitavatnslögnina. Það var náttúrlega grábölvað að það skyldi fara eins og það fór. Það var ekki eins og sú vinna hefði hafist daginn áður heldur hafði sá undirbúningur staðið vikum ef ekki mánuðum saman. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil nú ítreka það að mér finnst viðbragðsaðilar hafa verið að vinna á mjög mörgum plönum í því að reyna að koma í veg fyrir að dekkstu sviðsmyndir raungerist.