154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:20]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta Alþingis fyrir að koma til móts við beiðni mína um þá umræðu sem fer hér fram í dag og ekki síst forsætisráðherra fyrir sína yfirferð. Ég taldi mjög mikilvægt að við myndum ræða hér á þingi sem allra fyrst þá stöðu sem við glímum við á Reykjanesi, sérstaklega í ljósi síðustu atburða þar, en eins og alþjóð veit höfum við verið að glíma við náttúruvá á Reykjanesi í langan tíma og virðist ekkert lát vera á.

Það er þessi tími, virðulegi forseti. Stundum er því fleygt að fólk virðist þreytt á endurteknum atburðum, það tala sumir um stríðsleiða þegar langvarandi stríð skellur á og við erum sannarlega í stríði við náttúruna nú um stundir. Þess vegna er mikilvægt að missa ekki sjónar á verkefnunum. Sex eldgos á Reykjanesi geta kannski flokkast undir það svakalegasta sem við höfum tekist á við hér á Íslandi og minna okkur á að þetta eru viðvarandi atburðir. Að mínu mati hafa stjórnvöld svo sannarlega staðið sína plikt og unnið af fullum þunga og gera enn í glímu sinni við náttúruöflin. Við aðstæður sem þessar kemur þó ótti upp í hugann og gildir þá einu hvort um börn eða fullorðna er að ræða. Því nær sem við erum atburðum, því meiri er óttinn. Í mínu tilfelli, sem íbúi á svæðinu, hefur sá ótti fyrst og fremst snúist að okkar innviðum, enda hafa stjórnvöld, almannavarnir og viðbragðsaðilar staðið sig frábærlega í því að tryggja líf og heilsu fólks. Okkur hefur gengið mjög vel að beisla náttúruna á Reykjanesi. Eru það ein af lykillífsgæðum á því landshorni og sama má segja um beislun jarðhita á öðrum stöðum á landinu sem er grundvöllurinn fyrir lífsgæðum fólks.

Ég hef nefnt það í ræðum mínum að það er mikilvægt að við undirbúum og endurskoðuðum allar áætlanir þegar atburðir raungerast og mikilvægt er að kynna þær áætlanir fyrir íbúum og tryggja eftir fremsta megni þátttöku allra sem þar að koma. Því vil ég nefna að það var 8. nóvember síðastliðinn sem íbúafundur var haldinn í Hljómahöll í Reykjanesbæ til að kynna fyrir íbúum milliliðalaust þær áætlanir sem lágu fyrir til að mæta þeirri náttúruvá sem hefur blasað við og gæti raungerst. Almannavarnir undirbúa fjölmargar leiðir til að bregðast við náttúruhamförum í samstarfi við stóran hóp sérfræðinga og hagaðila. Það er ekki bara gert til að bregðast við einni sviðsmynd heldur fjölmörgum og tryggja að allir séu undirbúnir undir þær bjargir og til að tryggja þær bjargir sem gæti þurft að grípa til. Fram kom á fundinum umrædda að rafkynding væri skynsamlegasta leiðin til að verja verðmæti kæmi til þess að heitt vatn bærist ekki til byggða. Sú áætlun byggist þó mjög og að mörgu leyti á samstilltu átaki og verulegri þátttöku íbúa svo að vel megi til takast. Um hádegisbil á fimmtudag var ljóst að hraun myndi renna yfir heitavatnsæð frá Svartsengi. Eins og hér hefur komið fram voru þar fyrir mjög mikilvægir innviðir en búið var að vinna þrotlaust að því að reyna að koma varalögn í jörð og var stutt í að slíkt myndi klárast. Sambærileg lögn var einnig lögð til Grindavíkur og þoldi hún álagið þegar hraun fór yfir hana og er sú æð enn nothæf. En því miður brást hún í þetta skipti og þá var nauðsynlegt að grípa til þess að fara í plan B.

Auðvitað eru aðrir innviðir á svæðinu einnig sem búið var að vinna að alls kyns forvörnum í kringum. Má þar nefna að verja háspennumöstur raforku til þess að verja línur fyrir glóandi hrauni. Strax í nóvember var hafist handa við að klára varavatnsból í Árnarétt í Garði og er það varavatnsból tilbúið til notkunar og svo má lengi telja. HS Veitur hafa unnið þrotlaust að því að styrkja dreifikerfi raforku til að geta mætt rafkyndingu. Staðreyndin er sú að á þeim svæðum þar sem við njótum háhitans eru slík kerfi ekki búin til fyrir húshitun þannig að ljóst var að mikið átak þyrfti og samheldni íbúa væri þar lykilatriði. Viðgerð á þeirri lögn sem fór undir hraun hófst strax, eins og ég nefndi, en seinna kom í ljós að hún fór í sundur undir miðju hrauni og þá var strax hafist handa við að koma nýrri lög yfir hraunið á 600 metra kafla. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu snurðulaust það gekk fyrir sig þótt átakið hafi verið gríðarlegt og verður seint fullþakkað það framtak allra þeirra sem tóku þátt í þeirri aðgerð. Að sjálfsögðu var unnið nótt og dag og almannavarnir stóðu vaktina ásamt lykilaðilum á svæðinu. Farið var í ýmsar aðgerðir sem styrktu dreifikerfi raforku, hafist var handa við að flytja gríðarlegt magn af vatni frá höfuðborgarsvæðinu til að verja vatnsdreifikerfi fyrir skemmdum og hraða því ferli að hægt væri að koma vatni aftur á. Almannavarnanefnd svæðisins stóð sig frábærlega eins og ég hef nefnt. Upplýsingagjöf var til fyrirmyndar og raunin varð að verkefnið tók skemmri tíma en óttast var í fyrstu.

Ég er stoltur af öllu þessu frábæra fólki og veit að það eru íbúar á Suðurnesjum og landsmenn allir. En hér hefur verið nefnt: Og hvað svo? Nú þegar þessum viðburði er lokið í bili verðum við að fara yfir það sem betur mætti fara. Við eigum að taka þá umræðu á heiðarlegan hátt og halda ótrauð áfram. Suðurnesjamenn hafa gengið í gegnum ýmislegt í gegnum tíðina en gríðarlegar jarðhræringar og eldgos í námunda við byggð hafa ekki ógnað tilveru okkar og lífsgæðum frá því að land byggðist. Sú byrði hefur lent af ómældum þunga á Grindvíkingum sem nú búa fjarri heimilum sínum og við þeim blasir óvissa sem stjórnvöld þurfa að mæta eftir fremsta megni. Það orðatiltæki að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur, hefur verið mjög ofarlega í huga á undanförnum dögum. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að huga að okkar innviðum til lengri tíma. Ég er stoltur af þeim verkefnum sem stjórnvöld hafa farið í á undanförnum mánuðum og árum til að bregðast við þeirri náttúruvá sem hefur blasað við okkur og ég er þess fullviss að sú vinna mun halda áfram. Ég vil nýta þetta tækifæri undir lok ræðu minnar til að segja aftur: Takk, kæru íbúar á Suðurnesjum, fyrir þolgæði ykkar, dugnað og samkennd á þessum tíma. (Forseti hringir.) Við munum áfram standa þétt við bakið á ykkur.