154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[16:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssyni, fyrir þessa ágætu skýrslu. Ég ætla að byrja á því einmitt að vísa í 2. gr. stjórnarskrár þar sem segir:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.“

Það eru ekki einungis bloggarar á mbl.is sem hafa haft áhyggjur af innleiðingu á bókun 35 heldur einnig virtir lögspekingar. Fræðimenn hafa nefnilega bent á að með innleiðingu bókunar 35 þá kynni að myndast sú staða að fjórfrelsisreglur EES-samningsins myndu ganga framar íslenskri löggjöf. Hefur hæstv. ráðherra utanríkismála engar áhyggjur af þessu?

Hér hefur hæstv. ráðherra talað um tveggja stoða kerfið. Ég vil líka líta á EES-samninginn sem tvíhliða samning og við þurfum í rauninni ekki að samþykkja eitt eða neitt af því bara. Þess vegna fagna ég því að við skulum ætla að koma hér og taka einhverja vitræna umræðu um bókun 35 því að persónulega hef ég miklar áhyggjur af henni.