154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[16:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er nú fyrst til að svara að fjórfrelsisreglurnar hafa lagagildi á Íslandi. Ég var að vonast til þess að við gætum átt samtal eða tekið umræðu hér í þinginu án þess að hafa frumvarp fyrir framan okkur, án þess að vera með tillögu til breytingar fyrir framan okkur, heldur að ræða þá þjóðréttarlegu skuldbindingu sem felst í þessari bókun og velta því fyrir okkur hvort hugmyndir um að bregðast við áliti ESA feli í sér breytingar á framkvæmd samningsins eingöngu eða hvort menn líti svo á að með því að bregðast við álitinu væri verið að höggva eitthvað í tveggja stoða kerfið, sem mér finnst ekki vera. En til þess er nú leikurinn gerður að menn geti rætt þetta fram og til baka.