154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að byrja á þessari skýrslu og innihaldi hennar en það verður að segjast eins og er að síðasta ræða dró kannski fram það sem ég óttaðist, þ.e. að ríkisstjórnin eða ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki einhuga í því að halda áfram að standa vörð um EES-samninginn, að halda ekki áfram að gera það sem þeir lofuðu á sínum tíma og skuldbundu sig til. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að það hefur ekki verið klárað en þetta snýst einfaldlega um það að við Íslendingar getum treyst því að réttindi okkar samkvæmt EES-samningnum séu virt hér á Íslandi, við séum með sömu réttindi samkvæmt samningnum, fólk og fyrirtæki sem eru starfandi á Íslandi hafi sömu réttindi annars staðar á EES-svæðinu. En ræða hv. þm. Bjarna Jónssonar, fyrrverandi formanns utanríkismálanefndar, bregður ákveðnu ljósi á það af hverju við kláruðum ekki umfjöllunina síðast og fórum ekki með málið í gegnum utanríkismálanefnd. Það er ekki bara við hann að sakast. Við höfum upplifað það ítrekað — gott og vel, við vitum að Flokkur fólksins er eindregið á móti þessu og kemur ærlega fram varðandi það, það sama með Miðflokkinn sem ætlar einfaldlega að gera út á það að vera á móti öllu sem kemur frá EES. Ég vil taka undir með hæstv. utanríkisráðherra, það væri heiðarlegra að þeir sem setja fram efasemdir um stjórnarskrána fari þá að tala gegn EES-samningnum. En það virðist vera að hvorki Flokkur fólksins né Miðflokkurinn treysti sér algerlega til að fara þangað. En ég spái því að það verði þá gert innan tíðar. Það væri heiðarlegri nálgun í þessari gagnrýni sem þeir flokkar hafa verið að setja fram á þetta mál.

En auðvitað er ekki bara núna einhver óróleiki meðal Vinstri grænna, og það eru ákveðin tíðindi, heldur erum við með gamalkunnugar raddir innan úr Sjálfstæðisflokknum sem hafa verið háværar og verða sífellt háværari. Mig langar til þess, þótt mér finnist aldrei mikill bragur á því að vitna í það sem maður hefur skrifað sjálfur, að vitna í grein sem ég skrifaði á sínum tíma, fyrir þremur árum, en þá ritaði ég grein um orkupakkann og um þá miklu andstöðu sem var gegn honum, ekki síst innan úr Sjálfstæðisflokknum sem slíkum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarás í utanríkispólitík oftar en ekki, að mínu mati, farsælli utanríkismálapólitík. Við getum vitnað til NATO. Við getum vitnað í EES-samstarfið og EFTA, svo ég tali nú ekki um Norðurlandamálin. En við sáum það á allri umræðu og innleiðingu á þriðja orkupakkanum að það var verulega verið að vinna gegn því máli á sínum tíma. Ég varaði við því og benti á að með því væri svolítið verið að fara frá því sem var á árum áður þegar Sjálfstæðisflokkurinn var svona ákveðin kjölfesta í utanríkispólitík landsins, þegar þingmenn beinlínis treystu sér ekki til að styðja við það mál sem var stórt og erfitt nema það kæmu fleiri þingflokkar að því. Það var m.a. þess vegna sem ég og þáverandi formaður Samfylkingarinnar skrifuðum bréf til forsætisráðherra um að við myndum styðja þetta mál ef það yrði til þess að greiða fyrir því, en það tók ein tvö ár á sínum tíma í þinginu. Það er auðvitað fullkomlega óásættanlegt að ríkið þurfi það langan tíma til þess að koma innleiðingu af því tagi í gegnum þingið.

En það sem er ekki er síður mikilvægt er hvernig við erum undirbúin til að mæta þessum nýju áskorunum í alþjóðasamvinnunni. Ég benti á það þá að ég væri hrædd um að kjarni málsins væri sá að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki nægilegan stuðning í baklandinu til að geta borið ábyrgð á því í ríkisstjórn að EES-samningurinn yrði framkvæmdur eins og við viljum sjá hann framkvæmdan. Ég spurði: Hvaða mál verður tekið í gíslingu næst? Það tók ekki langan tíma. Við erum komin að þessu máli sem er nú verið að taka í einhvers konar gíslingu. Ég vona að þessi millileikur sé ekki til að nota til heimabrúks. Við munum það að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir þessu máli fyrir ári síðan en það komst ekki í gegn. Síðan erum við að sjá þennan millileik sem skýrslan er. Gott og vel. Hún getur verið og vonandi verður hún undirstaða breiðrar umræðu um það hvernig við viljum virkja EES-samninginn sem best og mest fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. En við bíðum líka eðlilega svolítið spennt eftir því hvort ríkisstjórnarflokkarnir treysti sér til að fylgja þessu máli eftir og leggja fram boðað þingmál sem er núna á þingmálaskránni fyrir vorið. Ég verð að segja að bjartsýni mín hefur ekki aukist eftir að fleiri raddir heldur en úr Sjálfstæðisflokknum hafa núna lýst efasemdum gagnvart þessari leið.

En gott og vel, við erum svo sannarlega tilbúin í það að segja það sem segir m.a. í skýrslu utanríkisráðherra, þ.e. að vekja umræðu og kalla fram sjónarmið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um þessar skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum. Það er vel gert að mínu mati hvernig þessir ákveðnu þættir eru dregnir fram í skýrslunni og ég hvet fólk til að kynna sér hana til að verða enn upplýstara. Ég er ósammála því, af því að hæstv. utanríkisráðherra er að safna saman ábendingum og röddum til að hann geti hugsanlega réttlætt að fara aðra leið heldur en verið er að ræða um að fara, þ.e. að fara aðra leið heldur en frumvarpsleiðina, og ég vil einfaldlega draga það skýrt fram að við í Viðreisn styðjum þá leið. Við teljum mjög mikilvægt að við fylgjum eftir okkar skuldbindingum gagnvart EES-samstarfinu af því að undir þetta falla einstaklingar, undir þetta falla réttindi fólks, réttindi fyrirtækja. Með EES-samningnum fengum við ekki bara aðgang að þessu tæplega 500 milljóna manna hagkerfi á EES-svæðinu heldur ekki síður hitt að réttindi fólks jukust. Við fengum skýrari og skarpari samkeppnislöggjöf, eitthvað sem við gátum ekki séð um alveg sjálf, og síðast en ekki síst þá jukust einfaldlega lífsgæði fólks og samkeppnishæfni Íslands. Við sjáum það alveg á bæði hagvaxtaraukningu og verðmætaaukningu og kaupmáttaraukningu að síðan við gengum inn í EES, öxluðum þá ábyrgð og nýttum fullveldið í okkar þágu, í þágu þjóðarinnar, þá hefur Ísland bara farið upp á við. Það sýnir að það að vera þátttakendur í alþjóðasamstarfi skiptir máli þó að ég vilji að sjálfsögðu að okkar rödd heyrist enn betur með því að vera aðilar við borðið. En það er ekki til umræðu hér.

Ég lít einfaldlega á þetta mál sem ákveðna varnarbaráttu um EES. Það er sama hvernig við lítum á það, sama hvernig við reynum að rýna í allar þær greinar og allar þær raddir sem koma ekki síst innan úr Sjálfstæðisflokknum, hvort sem það eru fyrrverandi varaþingmenn eða jafnvel þingmenn núna innan flokksins, fyrir utan málgagn Sjálfstæðisflokksins sem er Morgunblaðið, það er alveg ljóst að EES-samningurinn á undir högg að sækja og það er alvarlegt. Það tökum við í Viðreisn alvarlega og þess vegna eru okkar skilaboð skýr: Við viljum standa vörð um hann, við viljum verja þennan mikilvæga samning. Ég er oft spurð: Hvað þýðir þetta í rauninni, bókun 35, Þorgerður, hvað þýðir þetta, skiptir þetta einhverju máli? Þetta er risamál. Þetta er nefnilega risamál sem er verið að reyna að afbaka í þá veru að við séum að missa einhver réttindi eða eitthvert fullveldi. Það er langt í frá þannig. Það er einfaldlega verið að fylgja eftir því sem þáverandi ríkisstjórn samþykkti, þáverandi þing samþykkti hér á Íslandi og við erum að fylgja því eftir til þess að verja og treysta réttindi einstaklinga, borgara og fyrirtækja í landinu.

Örstutt, svo það sé alveg skýrt: Í ESB gilda aðrir hlutir. Þar gildir m.a. þessi regla líka um óinnleiddar reglur. Við erum bara að tala um þær reglur og þau lög sem við hér á Alþingi höfum samþykkt. Þetta snýst um að forgangsraða lögum sem við hér, löggjafarþingið, sem erum fulltrúar almennings höfum samþykkt. Það er ekki verið að tala um neitt annað. Með þessari reglu er verið að tryggja samræmdar reglur á öllu svæðinu, t.d. til að tryggja frjálst flæði vöru þannig að innlendar reglur hamli því ekki, hvað þá reglur innan ESB, að íslenskar vörur, okkar verðmætu útflutningsvörur, geti flætt eðlilega inn á EES-svæðið og lúti sömu reglum og við viljum að þær geri og það sé ákveðið samræmi á öllu svæðinu. Það er vont ef Íslendingar sem hafa búið úti, eins og núna í því dómsmáli sem er fyrir Landsrétti, að mig minnir, frekar en Hæstarétti, og flytja hingað heim geti ekki gengið að því vísu að hér gildi sömu reglur og annars staðar á EES-svæðinu eins og t.d. varðandi fæðingarorlofið, að þeir geti sótt rétt sinn hérna heima þegar þeir eru fluttir hingað heim. Þannig að ég ítreka það, þetta er til þess að fólk geti treyst á að réttindi þess séu algild innan EES-svæðisins og þess vegna er þessi leið nauðsynleg. Hún er lagaleg nauðsyn og hún eykur réttarvernd borgaranna og hún eykur réttaröryggi borgaranna í öllu þessu samhengi. Mér finnst það auðvitað líka ótrúlega spennandi bara pólitískt að sjá hvernig umræðan er að þróast í samfélaginu um nákvæmlega þetta mál, hverjir það eru sem eru að reyna að næra óöryggi, óvissu, ýta undir eitthvað allt annað heldur en raunverulega er. Við upplifðum það í þriðja orkupakkanum. Við sáum það á erlendri grundu mjög vel, þá sem börðust fyrir Brexit, þar sem meira og minna allt sem var fullyrt voru lygar, var tilbúningur, var eitthvað til að ala á óöryggi eða vekja falskar vonir hjá breskum almenningi. Ég er hrædd um að það sé verið að fara sömu leiðina hér, nota sömu retóríkina.

Þess vegna þarf flokk eins og Viðreisn til að tala fyrir því að við höldum áfram þessu alþjóðasamstarfi, við höldum okkar mikilvægasta milliríkjasamningi sem við höfum gert fram til þessa, EES-samningnum, og fylgjum honum eftir til þess að passa upp á íslenska ríkisborgara, íslenska þegna, íslensk fyrirtæki, að þau njóti jafnræðis gagnvart öðrum einstaklingum, borgurum og fyrirtækjum innan EES-svæðisins annars staðar. Það er mikið undir og ég undirstrika það að ef stjórnarþingmenn ætla að fara að hlaupast undan merkjum í þessu, hvort sem þeir eru frá Vinstri grænum eða Sjálfstæðisflokknum, sem hafa talað nokkuð digurbarkalega í þessu, þá er Viðreisn tilbúin til að styðja þessa leið sem var kynnt á vorþinginu síðasta og er boðað af hálfu ríkisstjórnarinnar að verði lögð aftur fyrir þingið. Við munum fara þá leið að styðja ríkisstjórnina. Við segjum: Það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Við munum gera það sem þarf til að verja þennan samning.