154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veitti því athygli að eftir sirka þriðjung ræðunnar þá gagnrýndi hv. þingmaður afstöðu tveggja þingloka, þingflokks Flokks fólksins, eða í öllu falli talsmanns hans í umræðunni, og Miðflokksins sömuleiðis, þó að við eigum eftir að halda ræðu okkar, bæði talsmaðurinn, formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og ég sem hér stend. En hv. þingmaður orðaði það sem svo að það væri heiðarlegra hjá þessum tveimur þingflokkum að leggjast bara gegn EES-samningnum eins og hann liggur fyrir í ljósi þessarar afstöðu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta vera til bóta gagnvart umræðunni, því að ég hef haft á tilfinningunni að þeir sem oft á tíðum leggja öðrum skoðanir í munn, eða hug í þessum efnum, séu kannski þegar á reynir þeir sem helst setja þrýsting á EES-samninginn. Ef það þykir ekki til bóta að hann sé ræddur með gagnrýnum hætti heldur skuli helst taka allt af færibandinu eins og það kemur fyrir þá setur það þrýsting á samninginn. Það er það sem við blasir við okkur víða um samfélagið.

Við erum hér dagana langa og ræðum gullhúðun, sem er viðbót sem verður hér hækkun í hafi, ef svo má segja. En síðan eru þessi sjónarmið sem auðvitað stangast á, um gæði og mikilvægi og afstöðu til þeirra EES-reglna sem hingað berast. En ég hef áhyggjur af því að þegar málum er ýtt í skotgrafirnar, eins og er svolítið gert, að ég held, með orðum hv. þingmanns um að þingflokkur Miðflokksins ætti bara að koma heiðarlega fram, eins og það var orðað, og segjast vera andsnúinn EES-samningnum, sem er alls ekki raunin, verði vandamál í sjálfu sér. Mig langar eiginlega að spyrja hv. þingmann: Telur hún eitthvað hafa komið fram í málflutningi Miðflokksins hingað til, ekki í þessari umræðu heldur almennt, sem bendir til þess að þingflokkur Miðflokksins sé andsnúinn EES-samningnum?