154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:43]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir andsvarið og fyrir yfirlýstan stuðning. En fyrst vil ég segja að það var auðvitað tiltölulega breið samstaða um málið í utanríkismálanefnd og ég hef því fulla trú á því að við finnum flöt á þessu máli, að við leysum hér í þinginu þessa hnökra á framkvæmdinni sem við erum svolítið strand með. Mér finnst ekki útilokað að það verði gerðar einhverjar breytingar á málinu eða a.m.k. vil ég ekki lýsa því yfir hér að ég telji það útilokað. Mér fannst þegar komið tilefni til þess vegna gesta og umsagna sem okkur bárust á síðasta þingvetri og mér fannst nefndarmenn vera sammála um að það væri e.t.v. tilefni til einhverra breytinga þannig að ég er bara opin fyrir því. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að þingmenn finni á þessu flöt og komi að þessu máli til að leysa það.