154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:51]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Varðandi fyrri hlutann, örstutt, þá tel ég hreinlega að sú staða hafi ekki komið upp, e.t.v. kemur að því einhvern tímann að við prufukeyrum þessa heimild en það verður þá ekki til þess að Íslendingar sitji ekki við sama borð og félagar þeirra í Evrópusambandinu. Það verður sannarlega ekki til þess.

Varðandi það hvernig ég sé fyrir mér afgreiðslu málsins eða verklag þá verð ég að játa það hreinlega að ég hef bara ekki nýrri eða betri upplýsingar en hv. þingmaður hefur eða nýrri en þær sem hæstv. ráðherra hefur greint frá hér í ræðustóli í dag varðandi það hvernig hann hyggst leggja þetta mál fram. Þannig að ég verð bara að játa mig mát varðandi seinni hlutann, ég bara veit það ekki.