154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[18:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hér ræðum við nokkuð nýstárlega nálgun í framlagningu máls, en ég geri ráð fyrir að þetta eigi að vera einhvers konar undanfari framlagningar, þ.e. að byrja á að kynna okkur þingheimi skýrslu. Hún er reyndar ekkert mjög löng, þetta er bara svona eins og meðalfrumvarp, meðalgreinargerð, en virðist fyrst og fremst og kannski eingöngu til þess ætluð að reyna að mýkja aðeins mannskapinn, draga úr andspyrnu eða hugsanlega að hvetja til dáða helstu talsmenn þessa máls sem eru ekki innan ríkisstjórnarinnar, að frátöldum þeim hæstv. ráðherra sem leggur þetta fram. Þeir sem helst hafa fagnað þessari skýrslu, þessum pésa hér, eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar, Evrópusambandsflokka, sem gleðjast mjög yfir þeim áróðri sem hér birtist. En fulltrúar stjórnarflokkanna hafa verið svona kannski tregari til að fagna þessu þótt hv. formaður utanríkismálanefndar hafi eiginlega eðli máls samkvæmt lagt nokkur orð í belg.

Það sem mér finnst þó sérlega skrýtið við þessa skýrslu, þessa einhliða skýrslu eins og ég nefndi, er að þar er í engu getið um sögu málsins á meðan það sneri á hinn veginn, á meðan Ísland var að verjast. Þáverandi utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili gerði það, að mér skilst, af talsverðri festu, talaði máli Íslands og útskýrði með aðstoð sérfræðinganna og embættismannanna hvers vegna Ísland ætti ekki að breyta innleiðingu 35. bókunar við EES-samninginn. Við höfum enn ekki fengið þessi skjöl afhent. Ég hef áður og á undanförnum árum beðið um þau í utanríkismálanefnd, það hefur nú alltaf eitthvað dregist en ég er búinn að ítreka beiðni um það. Það hlýtur að vera eðlileg krafa fyrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd að þeir fái upplýsingar frá hinu opinbera um gögn þess máls sem verið er að ræða. Hv. þm. Bergþór Ólason hafði áður ítrekað beðið um þessi gögn en fengið þau svör að þau yrðu ekki afhent honum. En ég sé ekki annað en að það beri að afhenda a.m.k. þingmönnum utanríkismálanefndar þessi gögn og auðvitað ætti að afhenda þau hvaða þingmanni sem er og í rauninni hefðu þau átt að birtast í þessari skýrslu fremur en að hér sé sett inn eitthvert áróðursplagg, einhliða áróðursplagg til að undirbúa frumvarpið.

Það er með öðrum orðum ljóst að því er virðist að ríkisstjórnin er búin að skipta um lið. Á síðasta kjörtímabili barðist hún með Íslandsliðinu gagnvart þrýstingi frá Evrópusambandinu eða ESA, sem eru í rauninni auðvitað náskyldir hlutir. Nú hefur þessi sama ríkisstjórn og talaði máli okkar Íslendinga skipt um lið, leggur hér fram fyrir Alþingi Íslendinga rök Evrópusambandsins um það að við verðum að hlýða. Við verðum að gefa eftir. Við verðum að láta undan og þetta er ekki í fyrsta skipti sem okkur er sagt það hér á Alþingi að það sé nú betra fyrir okkur að hlýða ESA og Evrópusambandinu.

Þá kemur alltaf upp þessi furðulega umræða að ef menn vilji gera einhverja athugasemd við EES-samninginn eða afleiðingar hans eða hafa varann á varðandi einhverjar innleiðingar eða breytingar þá séu hinir sömu bara á móti EES-samningnum. Þetta er alveg furðuleg nálgun og heyrist hér mjög oft. En eins og hv. þm. Bergþór Ólason benti á áðan þá er þessi málflutningur einmitt til þess fallinn að veikja EES-samninginn því að ef túlkun okkar fer að verða sú að við verðum bara að láta undan, við verðum að hlýða, við séum ekki á neinum jafnræðisgrundvelli í þessu samstarfi og það að kvarta eða tefja geti bara orðið til þess að okkur verði hent út, þá fara fleiri að velta fyrir sér hvort þetta sé svo góð hugmynd.

Þess vegna tel ég að þeir sem raunverulega vilja verja EES-samninginn eigi að gera það með því að vera reiðubúnir til að ræða það sem betur megi fara og gagnrýna þegar þörf er á því. Og nú er sannarlega þörf á gagnrýni því hér er beinlínis lagt til að fullveldi landsins og vald Alþingis verði skert. Þetta hafa margir bent á, m.a. dómarar, fyrrverandi hæstaréttardómari og sérfræðingar aðrir og þeirri gagnrýni hefur í engu verið svarað hér. Við heyrum sama gamla svarið sem var einhvern veginn á þá leið að það yrði áfram hægt að geta sérstaklega um það þegar lög væru sett ef þetta ætti ekki að gilda um þau lög. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér muninum á de jure og de facto eða einfaldlega muninum á því sem menn segja að sé hægt og því sem er hægt í raun og veru. Telur einhver, frú forseti, að þetta þing eins og það er skipað núna og í ljósi þess sem hér er borið á borð fyrir okkur myndi nokkurn tímann þora því eða vilja yfir höfuð setja slíkt sérákvæði í lög? Í fyrsta lagi náttúrlega myndu menn líklega ekki hafa rænu á því. Í öðru lagi myndu embættismennirnir vara þá á við og í þriðja lagi kæmu hér þingmenn segðu: Heyrðu, þið getið ekki leyft ykkur að setja inn svona ákvæði, þið eruð að stefna EES-samningnum í hættu.

Það er nefnilega málið. Hér eru menn farnir að lifa í ótta við EES-samninginn svoleiðis að eitthvað ákvæði um að Ísland geti ákveðið að setja inn reglu um að tiltekin lög eigi að vera undanskilin þessu hefur ákaflega litla praktíska þýðingu, fyrir utan það að hver yrðu viðbrögðin frá ESA eða Evrópusambandinu? Þau myndu einfaldlega benda á að þessi lög samræmist ekki reglum ESB. Þetta getur skipt máli, t.d. þegar er neyðarástand, þegar þarf að setja lög í skyndi, neyðarlög jafnvel. Við getum rétt ímyndað okkur hvort þetta hefði ekki bundið hendur okkar eða a.m.k. þvælst fyrir okkur þegar við vorum að taka á stóru ágreiningsefnunum við Evrópusambandið og Evrópusambandslöndin hér á liðnum árum. Að sjálfsögðu hefði það gert það og það hefði verið vatn á myllu þeirra sem íslensk stjórnvöld áttu í útistöðum við, hvort sem það var í málum eins og Icesave eða við vogunarsjóðina sem stöðugt hótuðu okkur að beita Evrópusambandslögum gegn okkur í þeim ágreiningi sem þá var uppi. Þið getið rétt ímyndað ykkur það ef þeir hefðu getað vísað í þetta: Sjáið, þið berið fyrir ykkur einhver lög hérna en þetta eru Evrópulögin og þau eru æðri þessum heimatilbúnu lögum ykkar.

Þetta mun að sjálfsögðu líka veikja varnir okkar hvað varðar færibandið og þessar endalausu innleiðingar sem eru náttúrlega löngu farnar úr böndunum, fyrir utan alla blýfyllinguna eða gullhúðunina eða hvað menn vilja kalla það á þessum reglum. Þetta með öðrum orðum eykur vald kerfisins og evrópsks kerfis, erlends kerfis, erlends valds.

Það er svolítið merkilegt að mér finnst margar aðrar þjóðir, jafnvel aðildarlönd Evrópusambandsins, vera ófeimnari við að verjast ágangi ESB. Fjöldi Evrópusambandsþjóða hefur reynt að standa í lappirnar og staðið í ágreiningi við ESB, valdsækni þess er náttúrlega vel þekkt. En hér eru menn allt of oft allt of litlir í sér þótt við séum ekki einu sinni aðilar að Evrópusambandinu. Þannig drögumst við inn í sífellt fleiri málaflokka sem áttu nú ekkert að heyra undir EES-samninginn og um leið vex þessi samningur, þessi lifandi samningur, eins og menn kalla það jafnt og þétt.

En það var ekki að ástæðulausu að bókun 35 var innleidd með þeim hætti sem gert var hér á sínum tíma. Þetta hefur komið fram hjá þeim sem stóðu að gerð EES-samningsins og voru í stjórnmálum á sínum tíma. Þetta gleymdist ekkert, það gleymdist ekki að skrifa allar línurnar og innleiða þetta eins og lagt hafði verið upp með. Nei, þetta var skilið eftir, það ákvæði sem nú á að reyna að troða inn, til þess að standa vörð um fullveldisrétt okkar. Svo koma menn hér og segja: Eruð þið ekki ánægð með að geta fengið ódýrari símtöl í útlöndum og svona? Að sjálfsögðu eru menn ánægðir með það og eitt og annað og margt gott sem fylgir samningum um viðskipti milli landa. En þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um að hér stendur til að fara í bága við það sem áður var talið mikilvægt og nauðsynlegt þegar samningurinn var gerður og lúffa gagnvart ESB án þess svo mikið sem að reyna að verjast. Vörnin sem hafði verið skipulögð á síðasta kjörtímabili er horfin, má helst ekki birtast. Í staðinn fáum við þetta einhliða plagg hér.

Og talandi um fullveldi. Hv. þm. Logi Einarsson las einmitt áðan áhugaverðan bút úr þessum bæklingi eða skýrslu. (Gripið fram í.) — Hann segist hafa lesið úr grein frá Davíð Þór Björgvinssyni, en sá bútur sem hann las er alla vega í skýrslunni. Ég biðst afsökunar ef hann las upp úr öðru plaggi, en þetta er alla vega að finna hér líka. Ég ætla bara að lesa þrjár setningar af þeim sem hv. þingmaður las. Þetta fylgir því að búið er að útskýra kosti þess að geta stofnað fyrirtæki í öðru landi, vitandi það að þar verði reglurnar eins og heima hjá þér. Og hér segir, með leyfi forseta:

„Þannig á Íslendingur sem nýtir sér réttindi samkvæmt EES-samningnum og flytur til Spánar og stofnar þar fyrirtæki að geta treyst því að reglur ESB gangi framar öðrum spænskum lögum, og mögulegar fullveldisáhyggjur Spánverja standi því ekki í vegi.“

Þetta snýst um fullveldi og fullveldisáhyggjur, í þessu tilviki áhyggjur ESA og Evrópusambandsins af því að einhver lönd séu enn þá með einhverjar fullveldisgrillur. Um leið má þó benda á, af því að hér er nefnt sérstaklega dæmi um að stofna fyrirtæki, að það eru mjög ólíkar reglur eftir löndum um hvað þarf til þess að stofna fyrirtæki. Við höfum oft rætt það hér á Íslandi að það þurfi að auðvelda stofnun fyrirtækja og draga úr skriffinnskunni í kringum það. Evrópusambandið tryggir okkur ekki öllum einföldustu og bestu leiðirnar og það getur bara verið ágætt. Ég tel að það sé flest sem mæli með því að það sé samkeppni á milli landa, samkeppni um að verða betri og standa sig betur en hin löndin því það hjálpar öllum á endanum, uppbyggileg samkeppni fremur en að öll löndin séu steypt í sama mót. Það mót er oft ekki það einfaldasta og besta, enda sjáum við það af því hversu þungt reglugerðafargan Evrópusambandsins leggst á almenning og atvinnulíf. Það hefur ýmsa kosti en hefur galla líka og við verðum að geta leyft okkur að nýta þau ákvæði samningsins sem eru til þess ætluð að við getum varið sérstöðu okkar þegar á því þarf að halda, að við getum varið það sem hentar okkur og okkar aðstæðum fremur en að vera neydd til að innleiða eitthvað sem hentar allt öðrum.

Þetta er því afskaplega sérkennilegt mál allt saman, að það sé komið frá þessum ríkisstjórnarflokkum, það sé rökstutt með þessum hætti. Hér hafa bæði fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gengið alla leið í því að tala fyrir einhverju ESB miðstýringarveldi sem megi alls ekki styggja og helst bara ekki að ræða, af því að ef menn ætla að fara að velta þessu eitthvað fyrir sér þá séu þeir á móti EES-samningnum sem að þeirra mati er heilagur. Þó hefði rökstuðningurinn allur allt eins getað verið fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu þegar maður hlustaði hér fyrr í dag á hv. þingmenn eða hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Einungis hv. þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Bjarni Jónsson, virtist átta sig á því hvers konar hætta væri hér á ferð. — Ég bið virðulegan forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.