154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[13:52]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Sem fulltrúi Flokks fólksins í samráðshópi þingmanna vegna Grindavíkur sem hefur fjallað um þetta frumvarp hafði ég þrennt að leiðarljósi: Í fyrsta lagi að Grindvíkingar fengju eins mikið fyrir heimili sín og mögulegt væri. Í öðru lagi að kostnaður ríkissjóðs hefði ekki neikvæð áhrif á verðbólgu og vexti. Í þriðja lagi að vinnan við frumvarpið tæki eins stuttan tíma og mögulegt væri. Alveg sama hve vel er unnið og hve mikið við leggjum okkur fram þá er alltaf ljóst í svona málum að þegar línurnar eru dregnar verða ekki allir sáttir. En einhvers staðar þarf að draga línurnar. Niðurstaða vinnu samráðshópsins er frumvarpið sem lagt er fyrir þingið í dag. Það ríkti algjör einhugur í hópnum sem að þessu kom um að gera eins vel við Grindvíkinga og unnt væri, hvort sem um var að ræða þingmenn stjórnar eða stjórnarandstöðu, starfsmenn ráðuneytisins eða ráðherra. Málin voru rædd af hreinskilni og komist að niðurstöðu.

Hvað varðar mín markmið þá er ég nokkuð sátt. Þegar umræðan hófst var í frumvarpsdrögum miðað við 90% af brunabótamati. Við vorum öll sammála því að brunabótamatið væri hagstætt fyrir Grindvíkinga því að það væri almennt svipað fasteignamati og stundum jafnvel hærra. Auðvitað eru undantekningar á því eins og öðru en við þurftum ákveða eitthvert viðmið. Þar þótti brunabótamatið henta betur en önnur tiltæk viðmið eins og t.d. fasteignamat. Það náðist samkomulag í samráðshópnum um að miða við 95% brunabótamats í staðinn fyrir 90% af því. Eins og við vorum sammála um þá munar Grindvíkinga um hvert prósentustig en af ýmsum orsökum sem ég ætla ekki að rekja hér var ekki talið rétt að miða við 100% sem auðvitað allir myndu helst vilja. En 95% er hærra en upphaflega var gert ráð fyrir og það er sigur.

Hvað varðar markmiðið um að frumvarp þetta verði ekki til þess að auka verðbólgu og standa í vegi fyrir lækkun vaxta þá held ég að það hafi gengið nokkuð vel. Svo virðist að með stofnun þessa félags og samkomulags við lánastofnanir séu útgjöld ríkisins vegna þessara uppkaupa ekki mikil og alls ekki þannig að þau muni hafa áhrif til hækkunar á verðbólgu og vöxtum. Ég vil almennt ekki tala fyrir skattahækkunum en mér finnst skipta gríðarlegu máli að þurfi sérstaka fjármögnun inn í þetta verkefni verði þess gætt að það auki ekki á nokkurn hátt álögur á heimili landsins vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Heimilin sem mest skulda og minnst eiga að geta ekki borið meira. En í þjóðfélaginu eru hópar sem varla hafa orðið fyrir neinum áhrifum vegna hækkandi vaxta og komi til þess að auka þurfi framlag ríkisins má alls ekki fara í lántökur sem auka álögur á heimilin heldur væri frekar tilefni til að hækka skatta á best stöddu hópa þjóðfélagsins til að fjármagna aðgerðirnar, sem aftur myndi minnka peningamagn í umferð og þannig hjálpa til í baráttunni við verðbólguna. Eins og frumvarpið lítur út í dag virðist sem þetta markmið hafi náðst þó að enn séu ekki öll kurl komin til grafar vegna ýmissa óvissuþátta.

Þriðja leiðarljós mitt var að unnið yrði að málinu eins hratt og hægt er. Frá því að ég kom inn á þing hef ég séð að hér vindur málum oft fram á hraða snigilsins, ef svo má segja. Fyrir því eru margvíslegar ástæður. Það þarf að vanda til verka við lagasetningu og lagafrumvörp eru yfirleitt flóknari en kann að virðast við fyrstu sýn. Það er ástæða til að halda því til haga að þó að Grindvíkingum þyki undanfarnar vikur hafa verið heil eilífð þá hefur verið unnið eins hratt í þessum málum og mögulegt hefur verið, enda er samstaðan innan þingsins algjör. Þó að eitthvað hafi verið tekist á um leiðir hafa markmiðin verið skýr.

Eftir að frumvarpið var birt í samráðsgátt komu 316 athugasemdir og eins og segir í samráðskafla frumvarpsins var nokkur samhljómur í þeim. Það er ánægjulegt að komið hafi verið til móts við flestar athugasemdirnar. Þó að í frumvarpinu sé ekki miðað við 100% brunabótamat, eins og margir höfðu viljað, verður að líta til þess að það átti upphaflega að vera 90%, þannig að 95% er ekki slæm lending. Í samráðskafla frumvarpsins er farið yfir þær breytingar sem urðu á drögunum vegna athugasemda sem bárust og þær eru þó nokkrar, enda um gagnlegar ábendingar að ræða. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum tekur frumvarpið nú t.d. til íbúðarhúsnæðis í eigu dánarbúa, komið er til móts við þá sem ekki eiga lögheimili í eignum sínum og það er mögulegt að selja félaginu sem stofnað verður íbúðarhúsnæði sem þegar hefur verið metið óviðgerðarhæft. Ekki reyndist mögulegt að koma til móts við óskir um veðflutning en engu að síður er verið að vinna að útfærslu samkomulags við lánveitendur sem felur í sér endurfjármögnun lána sem hvíla á eignum sem falla undir frumvarpið.

Um er að ræða nær 1.200 heimili og það er ljóst að einhverjir munu ekki verða alveg sáttir en yfir heildina tel ég að vel hafi tekist til. Það lögðust allir á eitt með hagsmuni Grindvíkinga í huga undir ákveðinni tímapressu og þetta er niðurstaðan. Að þessu öllu sögðu er ég nokkuð sátt við hana og vona að Grindvíkingar verði það líka. Málið fer nú til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem þeir agnúar og gallar sem finnast verða væntanlega sniðnir af því og vonandi líður ekki á löngu áður en þeirri vinnu lýkur.