154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

sjálfstæð rannsókn á aðdraganda slyssins í Grindavík í janúar sl.

[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þann 10. janúar síðastliðinn var hræðilegt slys í Grindavík þar sem Lúðvík Pétursson féll ofan í sprungu við vinnu sína við að fylla ofan í sprunguna. Ég vil byrja á því að votta fjölskyldu og aðstandendum Lúðvíks mína dýpstu samúð. Í kjölfar slyssins hefur komið fram ósk aðstandenda um að farið verði í sjálfstæða og óháða rannsókn á tildrögum slyssins og hefur fjölmiðillinn Heimildin bent á að nýlegar breytingar á lögum um almannavarnir geri það að verkum að slík rannsókn fer ekki sjálfkrafa af stað eftir atvik sem þetta heldur þurfi sérstaka ákvörðun um að rannsaka atburði sem almannavarnir komi að. Þá hafa aðstandendur gagnrýnt samskiptaleysi og andvaraleysi stjórnvalda í sinn garð í kjölfar slyssins. Í þessu samhengi er vert að benda á að stjórnvöld hafa sérstökum skyldum að gegna gagnvart rannsókn á dauðsföllum sem bera að með óeðlilegum hætti. Dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu sýna að slík rannsókn skal vera sjálfstæð og óháð og að aðstandendum skuli haldið sérstaklega upplýstum um gang mála.

Af þessum orsökum vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, hvort standi til af hálfu ráðherra að setja á fót sjálfstæða og óháða rannsókn á tildrögum og aðdraganda þessa slyss.