154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

Sjálfstæð rannsókn á aðdraganda slyssins í Grindavík í janúar sl.

[15:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um mjög alvarlegt slys og ég vil í upphafi fá að segja að hugur minn er hjá aðstandendum Lúðvíks Péturssonar sem lét lífið í Grindavík. Það hefur verið markmið okkar frá upphafi þessara eldsumbrota á Reykjanesi að koma í veg fyrir manntjón og hafa almannavarnir lagt allt kapp á það í sínum störfum að verja líf, verja heilsu og verja mikilvæga innviði. Það hefur verið gripið til mjög umfangsmikilla aðgerða í þessa veru. Þetta slys sýndi okkur að við þurfum stöðugt að vera á varðbergi og í þeim anda hafa almannavarnir starfað síðustu vikur og mánuði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá liggur fyrir að rannsókn er í gangi bæði hjá Vinnueftirlitinu og lögreglunni á tildrögum þessa slyss. Það er mikilvægt að þeirri lögbundnu rannsókn verði sinnt af festu. Um mitt ár 2022 gengu í gildi breytingar á lögum um almannavarnir þar sem rannsóknarnefnd almannavarna var lögð niður og er nú í lögum mælt fyrir um, eins og hv. þingmaður nefndi, þá skyldu almannavarna að framkvæma innri rýni á aðgerðum viðbragðsaðila eftir að almannavarnastigi hefur verið aflétt og þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki síst sú krafa að gripið sé til úrlausna ef þörf krefur. Þá er í sömu lögum kveðið á um heimild til að láta framkvæma ytri rýni sem er bæði í höndum stjórnar samhæfingar og stjórnstöðvar og svo ráðherra og þessi heimild er bæði fyrir hendi eftir að almannavarnastigi er aflétt og einnig meðan á því stendur. Það er bæði eðlilegt og nauðsynlegt þegar svo viðamiklum heimildum er beitt að aðgerðir séu rýndar og það liggur á mínu borði núna, eftir að ákvörðun ríkislögreglustjóra um brottflutning (Forseti hringir.) hefur verið aflétt, að skoða forsendur þess að setja af stað rannsókn á heildarviðbragði í Grindavík.