154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

áform stjórnvalda vegna aukins álags á lögreglu og almannavarnir í kjölfar náttúruhamfara.

[15:33]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það virðist vera nokkuð almenn og útbreidd vissa um það í samfélaginu að við Íslendingar séum mjög góðir í að bregðast við þegar náttúruhamfarir verða enda búum við í landi þar sem náttúran minnir óþyrmilega á sig reglulega, hvort sem það eru ofanflóð, óveður, jarðskjálftar eða eldgos. Veruleikinn hjá okkur núna er hins vegar af allt öðrum toga en oft áður vegna síendurtekinna eldgosa og jarðhræringa á þeim bletti landsins þar sem mikill meiri hluti landsmanna býr. Og þar sem meiri hluti landsmanna býr eru jafnframt mikilvægir innviðir, t.d. vegir, orkuver, atvinnurekstur og heimili fólks eins og við þekkjum. Þetta ástand hefur nú þegar skapað langvarandi og gríðarmikið álag. Við vitum ekki hversu lengi þetta ástand varir við Grindavík og við vitum heldur ekki fyrir víst hvaða svæðum og innviðum verður næst ógnað né hvenær það gerist. Það er gott að vera góður í viðbragði en í þessu ástandi reynir líka á úthaldið; úthald björgunarsveita, lögreglu, almannavarna og allra þeirra sem hafa hlutverk í því gangvirki sem tryggir öryggi okkar allra. Það liggur fyrir að nú þegar hefur þetta langvarandi álag tekið sinn toll af þeim sem sinna þessu mikilvæga hlutverki og talsverð umræða skapast um það hvernig best sé að bregðast við því. Gleymum ekki að lögreglan er undirmönnuð og það sama gildir um almannavarnir. Björgunarsveitirnar eru svo ólaunaðir sjálfboðaliðar og þannig hefur það verið lengi.

Ætlum við að styrkja lögregluna og almannavarnakerfið allt til að mæta þessu betur en verið hefur? Þetta er ekki áhlaupsverkefni heldur langvarandi ástand og mikil óvissa um hvar og hvenær þörfin á viðbragði verður mest. Ætlum við áfram að treysta á sjálfboðaliða í sama mæli og verið hefur í gegnum björgunarsveitirnar sem hafa verið að benda á að viðbragð á Reykjanesskaga geti dregið úr viðbragðsþrótti annars staðar á landinu? Hvaða áform eru uppi um að bregðast við þessu mikla álagi hjá öllum þessum aðilum hratt, vel og örugglega?