154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

áform stjórnvalda vegna aukins álags á lögreglu og almannavarnir í kjölfar náttúruhamfara.

[15:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr hvernig við ætlum að bregðast við því aukna álagi sem er orðið hér hvað varðar almannavarnaviðbragð. Ég get svarað því með þeim hætti að fyrst og síðast erum við að bregðast við með því að við erum með nú þegar í gangi heildarendurskoðun á almannavarnalögum. Við hófum þá vinnu síðsumars á síðasta ári og erum búin að vera að fara hér hringinn í kringum landið og ræða við almannavarnadeildir og svo aðra þá sem starfa að almannavörnum, eins og lögregluna einnig. Ráðherra gerir ráð fyrir því að sá starfshópur sem er með þetta verkefni skili tillögum til ráðherra núna í vor og að við munum þá hafa sumarið til að vinna úr því og að hér verði hægt að leggja fram frumvarp með breytingu á almannavarnalögum á næsta þingi, í haust.

Ég vil einnig fá að segja, og taka undir með hv. þingmanni, að við Íslendingar erum góð í viðbragði og ætli við séum ekki best í því. [Háreysti á þingpöllum.] En við erum kannski ekki svo góð í forvörnum og þar þurfum við að gera betur, leggja meiri áherslu á forvarnir. Okkar færustu vísindamenn vilja meina að við séum líklega komin í viðvarandi almannavarnaástand alla vega næstu misserin, næstu árin, jafnvel áratugina. Það kallar á það að við þurfum að styrkjaalmannavarnir, ekki bara á suðvesturhorninu heldur um allt land, og ráðherra hefur fullan hug á að gera (Forseti hringir.) hvað hún getur til að styðja við almannavarnir svo þau geti sinnt þessu hlutverki betur. [Háreysti á þingpöllum.]