154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

brottvísun fólks úr landi og eftirlit með landamærum.

[15:40]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera líkt og flestir hér í dag og beina fyrirspurn minni til hæstv. dómsmálaráðherra. Núna um helgina voru fréttir í fjölmiðlum af einstaklingi sem hafði sótt hér um hæli sem pólitískur flóttamaður. Honum hafði verið synjað um vernd hér á þeim grundvelli að hafa þegar fengið vernd í Grikklandi. Manninum var vísað úr landi og sökum þeirrar hættu sem af honum var talin stafa var honum vísað brott í lögreglufylgd auk þess sem hann fékk á sig endurkomubann. Daginn eftir var hann þó aftur kominn til landsins og er hér enn. Hér er því svo sannarlega ekki um að ræða skilvirka brottför. En við spyrjum okkur eflaust: Hvernig má þetta vera? Hver er tilgangurinn við að leggja út í kostnaðarsaman brottflutning fyrir íslenska ríkið á einstaklingi með skýru endurkomubanni þegar landamærin eru, eins og margir segja, hriplek eins og gatasigti? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé að gert til að koma einstaklingnum aftur úr landi og hvort það sé mögulegt að þetta sé eitt af fleiri sambærilegum dæmum úr kerfinu. Hvernig er eftirliti með landamærunum háttað og hvernig má vera að þetta sé sú staða sem uppi er?