154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og ítreka orð mín hér í dag að það er fullur vilji hjá ráðherra og ráðuneytinu til að standa vel að lögreglunni og styðja lögregluna með öllum mætti í hennar störfum. Eins og ég nefndi hér áðan hefur orðið ákveðin eðlisbreyting á störfum lögreglu þar sem mikil vinna og rannsóknarvinna fer fram, eins og ég sagði, í svokallaðri bakvinnslu, enda kemur það þannig fyrir að það er ekkert einasta mál þar sem ekki þarf að rannsaka tölvu, síma eða stafræn gögn og við þurfum sérstaklega sérfræðinga m.a. til að fara í gegnum það og sem hafa þekkingu hvað það varðar. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að fjárfesta í lögreglumönnum en ekki síður líka að fjárfesta í tækni og tækjum þannig að lögreglan sé jafn vel búin (Forseti hringir.) og þeir glæpamenn sem hún er að fást við á hverjum degi.