154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú held ég að ráðherrann hljóti að hafa mismælt sig vegna þess að hún talaði um ef grunur leikur á að einhver hafi framið brot, en sagði í ræðu sinni rétt áðan að það þyrfti ekki að leika grunur á því. Um það snýst þetta frumvarp, að lögreglan þarf ekki að hafa grun, sem er þröskuldurinn sem lögreglan þarf að uppfylla núna til að geta fylgst með fólki. Hún þarf að hafa grun. Hún þarf ekki að hafa rökstuddan grun, heldur grun, sem er lægra form af grun heldur en rökstuddur grunur. Það sem er verið að leggja til hér er að lögreglan hafi áreiðanlegar upplýsingar, en það er hvergi skilgreint og við vitum ekki hvað það þýðir. Við vitum að það er minna en grunur. Er það símtal frá nágranna sem finnst nágranni sinn eitthvað grunsamlegur? Er það nóg til þess að hefja eftirlit á almannafæri? Og við skulum taka það til greina að eftirlit á almannafæri er íþyngjandi. Það að lögreglan geti fylgt þér eftir inn á kaffihús, geti elt þig inn á bókasafn, geti elt þig hvert sem þú ferð á almannafæri á alla aðra staði en í heimsókn til mömmu þinnar eða heim til þín, er íþyngjandi aðgerð lögreglunnar og hún þarf ekki að hafa til þess grun. Það kalla ég eftirlit með almenningi, víðtækar eftirlitsheimildir með almenningi. Við getum kannski deilt um hvort þetta séu forvirkar rannsóknarheimildir eða afbrotavarnir, sem ég vil meina að sé nákvæmlega sami hluturinn, (Forseti hringir.) en þetta eru vissulega víðtækar eftirlitsheimildir.