154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að innflutningur á fíkniefnum er að sjálfsögðu áhyggjuefni, ég tek alveg undir það. Við þurfum að bæta okkur í þeim efnum. Við höfum svo sem fylgst með því sem er að gerast á þessum vettvangi og séð að harkan í þessum viðskiptum og öðru slíku er að aukast alveg gríðarlega þannig að ég er alveg bandamaður hv. þingmanns hvað það varðar að styrkja fíkniefnarannsóknir og tollgæsluna sérstaklega (Gripið fram í.) þegar kemur að innflutningi á fíkniefnum. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni. En hv. þingmaður var ekki kannski með neitt sérstakt andsvar hvað þetta varðar heldur almennar hugleiðingar um hvar Píratar standa í þessum efnum, hafa miklar áhyggjur af því að það sé verið að skoða vefsíður. Ég deili ekki þeim áhyggjum. Ég tel nauðsynlegt að geta fylgst með þessum hlutum, t.d. þegar kemur að ákveðnum síðum þar sem eru hreinlega leiðbeiningar um hvernig eigi að framkvæma hryðjuverk og annað ofbeldi. Ég get ekki litið svo á að það séu einhvers konar hleranir, það er alla vega ekki mín skilgreining á þessu. En ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við höfum það í huga, eins og ég hef sagt hér áður, að við lifum bara í breyttu umhverfi. Ég minntist hér áðan í andsvari á þessa öryggismálaráðstefnu í München sem var mjög athyglisverð. Niðurstaða þeirrar ráðstefnu var að staðan í Evrópu er mjög alvarleg. Öll þessi ríki sem sóttu þessa ráðstefnu eru að auka sín framlög til hernaðarmála, m.a. til að geta brugðist við hugsanlegum ógnum sem því miður eru nær okkur en okkur grunar.