154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé alveg ljóst af máli hæstv. dómsmálaráðherra í þessari umræðu í dag og fleiri þingmanna meiri hlutans sem styðja þessa ríkisstjórn að það er ekki á döfinni að bæta við þetta frumvarp neinu sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði áðan að hún teldi þetta fullnægjandi sem kemur fram í frumvarpinu, að þessi nefnd um eftirlit með störfum lögreglu sé nóg, og það þrátt fyrir ábendingar um að nefndin sjálf hafi kvartað undan því að hún hafi í rauninni ekki þau völd og þær heimildir sem hún þarf o.fl.

Mig langar því aðeins að umorða spurningu mína til hv. þingmanns þar sem það er alveg ljóst að engu sjálfstæðu eftirliti verður bætt inn í þetta frumvarp: Myndi hv. þingmaður, ef til þess kemur að hann verður hérna með okkur þegar þetta frumvarp fer í atkvæðagreiðslu, samþykkja það eins og það er?