154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar hugleiðingar sínar. Ég segi það ekki nógu oft að störf lögreglunnar hafa tekið gríðarlega miklum breytingum á síðustu árum þar sem stór hluti afbrotastarfsemi sem hefur farið fram í almannarýminu hingað til hefur fært sig yfir á netið. Um það erum við líklega sammála. Glæpastarfsemi sem var í almenna rýminu er að miklu leyti komin yfir á netmiðla og þar getum við nefnt t.d. mansal, eiturlyfjasölu, peningaþvætti og annað. Lögreglan verður að fá heimildir til þess að geta komið í veg fyrir þá glæpi eða þá starfsemi og það er það sem við erum að óska eftir að lögregla fái í þessu frumvarpi, hv. þingmaður. Ég vil einnig fá að ítreka það að þetta frumvarp fjallar um að hafa eftirlit í almannarými en ekki forvirkar rannsóknarheimildir. Þetta snýst að meginstefnu um að lögreglan geti farið og jú, fylgst með hegðun borgaranna á opinberum vettvangi, sem er, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi hér áðan, nokkuð sem blaðamenn eru að gera en lögregla hefur ekki heimildir til. Forvirkar rannsóknarheimildir fela almennt í sér þvingunarráðstafanir gagnvart einstaklingum svo sem eins og hleranir og haldlagningu þegar þær ráðstafanir byggja ekki á sakamálalögum. Þannig að ég ætla að biðja hv. þingmann að rugla þessu ekki saman.