154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir andsvar. Alltaf gaman að komast í andsvör við hæstv. ráðherra. Mig langar að benda á það að hæstv. ráðherra sagði að það gæti ekki gerst í dag að alþingismenn væru hleraðir. Þá langar mig hreinlega að spyrja til baka: Getur hæstv. dómsmálaráðherra staðfest það að enginn alþingismaður hafi verið hleraður frá 1969 til dagsins í dag, eins og ég spurði um?

Eitt af því sem hæstv. ráðherra og þeir sem benda á að þarna sé ekki verið að tala um hleranir — ég tók þetta dæmi úr sögunni af því að hleranir dagsins í dag fara sjaldnast fram í gegnum síma heldur fara þær í gang með því einmitt að fylgjast með á netinu t.d., því sem málgagn hæstv. dómsmálaráðherra, Morgunblaðið, vill kalla alnetið — ætli það sé ekki almannanetið. Í dag fylgjumst við með á netinu. Ef ég gæti fylgst með öllu því sem ráðherra er að gera á netinu er ég ekki viss um að ráðherra yrði mjög ánægð með slíkt eftirlit. En það er nákvæmlega það sem við erum að fara að gefa lögreglunni heimild til að gera, að fylgjast með öllu því sem ég segi á netinu, fylgjast með allri minni hegðun á netinu og ef hæstv. ráðherra líkar ekki við eitthvað í minni hegðun þá geti lögreglan farið að eltast við það. Þetta er því miður sá heimur sem við lifum í í dag. Já, hann er aðeins öðruvísi heldur en heimur afa gamla sem þurfti að lyfta upp símtólinu til þess að þetta virkaði, en í staðinn er þetta komið á netið og það er það sem þetta frumvarp leyfir.