154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir skemmtilegt andsvar. Já, við erum svo sannarlega komin inn í framtíðina, en eitt af því sem hefur vonandi breyst sem minnst á þessum 80 árum eru ákveðin mannréttindi og ákveðin lýðræðisleg gildi. Við þurfum að passa okkur á því, og það er þess vegna sem ég nefndi Ungverjaland sem dæmi, að um leið og við byrjum að skera niður eitt og eitt af þessum mannréttindum og þessum lýðræðislegu gildum er hættan sú að við förum ansi hratt niður á við og endum eins og sum af þessum löndum þar sem lýðræðið sem slíkt tapast. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni að við þurfum að efla starf lögreglunnar en ég vil gera það á varfærinn máta þannig að við séum ekki að troða lýðræðinu um tær þegar við erum að því. Ég vil sjá fleiri lögreglumenn. Ég vil sjá meiri pening fyrir rannsóknarvinnu og annað. Bara sem dæmi, í dag lifum við á tímum mikillar tækni og það eru fimm rannsakendur sem geta rannsakað stafrænar hliðar glæpa. Það ætti miklu frekar að þrefalda þann fjölda heldur en að reyna að fylgjast með einhverjum fleirum vegna þess að þessir fimm ná engan veginn að komast yfir þau mál, hvort sem það eru kynferðisbrotamál, hryðjuverkamál, skattamál eða hvað sem er.