154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar til þess að taka frá honum allar óþarfaáhyggjur sem lúta að persónuverndinni okkar vegna þess að þessi löggjöf sem hér liggur fyrir Alþingi núna um heimildir til lögreglu byggir bara á almennri löggjöf. Það var u.þ.b. þegar við vorum að ganga og innleiða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem við breyttum mannréttindakafla stjórnarskrár. Stjórnarskráin er okkar æðstu réttarheimild, hún er okkar grundvallarlög og hún verndar í rauninni persónulöggjöfina gagnvart allri valdníðslu valdhafa sem ætla með almennri löggjöf að ganga á svig við stjórnarskrá. Þannig að ég segi: Ég held að við getum verið nokkuð góð með það. En ég má bara til að nefna, svona til gamans, að frá því að ég byrjaði að hlusta á hv. þingmann í sinni skemmtilegu sögustund og í einhverri bremsu fyrir 80 árum síðan þá hef ég ekki heyrt neitt annað í höfðinu heldur ljóðlínuna: Ég lifi í draumi, veit ekki hvað vindar þjóta, og allt það. Ég er að vona að ég losni við það núna en lagið er mjög fallegt og Björgvin Halldórsson söng það virkilega vel. En svo við snúum okkur að alvöru málsins þá erum við hér að fjalla um almenna löggjöf og við sem borgarar erum varin gegn alls konar valdníðslu stjórnvalda í stjórnarskránni sjálfri, í mannréttindakaflanum. Þannig að heyr, heyr, nú eru allar áhyggjur foknar út í veður og vind, ekki satt, hv. þingmaður?