154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fjöldi hælisleitenda og flóttafólks er orðið í stórvandamál og það vegna stefnu og úrræðaleysis ríkisstjórnarinnar sem hefur verið á hröðum flótta undan eigin vandamálum og algjöru úrræðaleysi í málaflokknum. Þessi vinnubrögð hafa sett gríðarlegan þrýsting á innviði heilbrigðiskerfisins, skólasamfélagsins, allt vegna málefna hælisleitenda og flóttafólks, sem eru orðin að miklu hitamáli í umræðu almennings á Íslandi, en þó einnig í stjórnmálaumræðunni. Því miður er ekki auðvelt að tala um málaflokkinn þar sem góða fólkið skautar fram hjá öllum staðreyndum og öskrar strax: Rasismi, rasismi. Því er eiginlega vonlaust að tala um málaflokkinn af nokkru viti. Starfsfólk skóla með erlend börn sem tala ekki nema sitt eigið tungumál — það veldur gríðarlegum þrýstingi á innviði skólakerfisins með öllum þeim andlegu og félagslegu vandamálum sem því fylgja.

Álag á málaflokkinn er löngu komið langt yfir þolmörk og það vegna þess að stefnulaus stjórnvöld auka bara á vandann og velta ábyrgðinni yfir á þá sem ekki eiga að taka ákvarðanir í þessum málaflokki og það án alls samráðs eða samvinnu. Fjöldi hælisleitenda og flóttafólks hefur aukist það mikið á skömmum tíma að álag á starfsfólk skóla og félagsþjónustu er löngu komið langt yfir þolmörk sem er síðan að valda hruni í skólakerfinu, félagsþjónustunni, heilsugæslunni sem nú þegar er þanin langt yfir ystu þolmörk. Kulnun vegna álagsveikinda er nú þegar orðið stórvandamál í þeim skólum sem eru með flest börn af erlendu bergi brotin og þá er þetta stjórnlausa ástand að valda því að önnur börn í sumum bekkjum fá þá ekki kennslu við hæfi. Munum að 47% drengja hérlendis búa ekki yfir grunnfærni í lesskilningi og hjá stúlkum er hlutfallið 32%. Lækkunin er 14 prósentustig hér á landi frá síðustu könnun. Allir tapa í þessu stjórnlausa ástandi og þá mest börnin sem eiga kröfu á að fá kennslu við hæfi og þá einnig kennarar og annað starfsfólk, sem er að brenna upp vegna ómannúðlegs álags og endar hvar? Jú, í vanhæfu, yfirsprungnu heilbrigðiskerfi.