154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

sjúklingatrygging.

718. mál
[16:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna. Það er svo sem eitt og annað að ræða í þessu en mig langar kannski að óska eftir frekari upplýsingum um kafla 3.1., um hámarksbætur. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Rétt er að benda á að annars staðar á Norðurlöndum er ekki lögbundið hámark á bótum úr sjúklingatryggingu.

Hækkun hámarksbóta eða niðurfelling þess ákvæðis væri til þess fallin að auðvelda tjónþola að sækja rétt sinn, en núverandi verklag er þannig að tjónþola er bent á möguleikann á því að leita til ríkisins ef hámarki bótafjárhæðar skv. 2. mgr. 5. gr. laganna er náð til að fá tjón sitt fullbætt. Í þeim tilvikum þarf tjónþoli að rökstyðja kröfu um skaðabætur með vísan til almennrar sakarreglu. Við meðferð máls hjá sjúkratryggingastofnuninni er aðkoma lögmanns óþörf og er það því íþyngjandi fyrir tjónþola að tjón hans fáist ekki að fullu bætt hjá stofnuninni.“

Bætur eru núna 14 milljónir og eiga að fara upp í 21 milljón. Maður veltir fyrir sér hvers vegna er ekki farin sú leið eins og þarna er bent á í frumvarpinu, af því að hér er alltaf verið að segja að við ætlum að gera þetta eins og Norðurlöndin. Gott dæmi eru hælisleitendamálin. Hvers vegna er ekki verið að gera þetta í þessu tilfelli eins og Norðurlöndin gera þetta, þ.e. að hafa ekki eitthvert hámark á bótum sem þarf þá að sækja með einhverjum allt öðrum hætti?