154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

sjúklingatrygging.

718. mál
[16:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir góða spurningu. Ef ég hef tekið rétt eftir væri hægt að orða spurninguna svona — af því að hv. þingmaður fór aðeins líka í tengingu við Norðurlöndin. Við erum auðvitað ekki að ganga eins langt og til að mynda í Danmörku varðandi að taka öll lyf undir. Sú ákvörðun var meðvituð um að það þyrfti meiri tíma og talið rétt að klára það sem sneri að þeim bólusetningum sem stjórnvöld hvetja til en það hefur tengingu við þetta: Af hverju ekki að nema þá hámarksákvæðið og greiða allt tjón úr sjúklingatryggingu, ef ég skil hv. þingmann rétt. Breyting á þessu ákvæði um hámarksbætur — það kom til umræðu, ef við förum þá leið þá þarf að meta tjón nákvæmar af því að þetta á sér skírskotun til skaðabótalaga, þ.e. núverandi verklag er með þeim hætti að ef bæturnar kunna að vera hærri eða réttur tjónþola til að sækja hærri bætur til að fá tjón sitt bætt þá þarf tjónþoli að rökstyðja kröfu um skaðabætur með vísan til almennra sakarreglu.

Þá komum við að þessari spurningu sem hv. þingmaður kemur að varðandi hámarksbætur. Það yrði auðvitað bara miklu tímafrekara ef við ætluðum Sjúkratryggingum það allt. Það yrði að gera frekari breytingar vegna þess að þá erum við komin í þá vegferð að meta allt tjón miklu nákvæmar og það krefðist meiri mannafla. Einnig má búast við að dómsmálum gegn sjúkratryggingastofnuninni og öðrum sem kunna að gera upp bætur á grundvelli laga myndi fjölga. Þetta útilokar ekki — þetta auðveldar meiri hluta tjónþola að sækja bætur (Forseti hringir.) og þetta auðveldar þeim sem sækja hærri bætur að sækja sinn rétt. (Forseti hringir.) Ég skal reyna að útskýra þetta betur í seinna andsvari.

(Forseti (ÁsF): Ég minni ráðherra og ræðumenn á tímann.)