154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

varðveisla íslenskra danslistaverka.

688. mál
[16:45]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni fyrir þessa mikilvægu þingsályktunartillögu sem snertir á mikilvægri varðveislu menningarverðmæta og menningarsögu í víðu samhengi. Elstu heimildir um dansa á Norðurlöndunum eru frá Íslandi og það er íslenskum bókmenntum að þakka að svo snemma er getið um dans. Fyrsta heimildin er frá 11. öld. Dans og dansþekking varðveitist t.d. í samfélaginu í hreyfigeymd. Á fyrri hluta 18. aldar var bannað að dansa á Íslandi vegna þess að dans þótti leiða til lauslætis og var það talið stuðla að því að fjöldi dansa hvarf úr þjóðmenningu og við eigum í rauninni ekki danshefð nema að litlu leyti.

Mig langar til að spyrja hv. þingmanns, af því að hann taldi upp nokkrar skráningaraðferðir, hvort hann sjái fyrir sér nýjar skráningaraðferðir í samhengi við þróun í stafrænum heimi, t.d. hvað varðar einhvers konar þrívíddarupptökur eða slíkt. Væri t.d. hægt að ímynda sér að slík varðveisla væri nákvæmari en bara myndbandsupptaka? Og einnig að dansar geymdust jú til forna með kennslu milli kynslóða, sér þingmaðurinn fyrir sér einhverja slíka geymd?