154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

breyting á ýmsum lögum varðandi aldursmörk.

301. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Er aldur besta leiðin til að meta hæfni einstaklinga? Ef einstaklingur hefur náð 18 ára aldri, svokölluðum fullorðinsaldri, en lögum samkvæmt er það sjálfræðis- og fjárræðisaldur, er þá málefnalegt að setja aldursskilyrði í lög umfram sjálfræðis- og fjárræðisaldurinn til að takmarka réttindi einstaklinga einungis aldursins vegna? Nei, virðulegi forseti. Ég ætla að gera hér tilraun til að útskýra hvers vegna ég tel svo ekki vera.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum varðandi aldursmörk. Markmiðið með frumvarpi þessu er að færa öll aldursskilyrði laga við sjálfræðis- og fjárræðisaldur sem er samkvæmt lögum 18 ára aldur. Hér vil ég nefna að það getur verið eðlilegt að setja hæfnikröfur um ýmsar stöður, ýmsar leyfisveitingar eða slíkt, en aldur á ekki að vera útilokandi þáttur einn og sér.

Víða í lögum er að finna svokölluð aldursmörk, þ.e. skilyrði um að einstaklingur hafi náð ákveðnum aldri áður en hann getur notið ákveðinna réttinda, öðlast ákveðin leyfi o.s.frv. Þá er einnig að finna efri aldursmörk, þ.e. um hámarksaldur einstaklinga svo að þeir geti öðlast ákveðin leyfi eða réttindi eða haldið þeim. Það að aldursmörk séu nokkuð á reiki í lögum, sums staðar er miðað við 21 árs aldur, annars staðar 25, jafnvel 26, 30, 35, 65 eða 70, lýsir því hversu handahófskenndar reglur þetta eru og hversu úrelt það er í raun að vera að setja aldursmörk í lög. Ef fyrir hendi eru málefnalegar ástæður til að takmarka aðgang að vissum leyfum eða réttindum er hægt að skrifa þær út í lögum eins og menntunarkröfur eða aðrar hæfnikröfur. Setjum okkur svo þá reglu hér eftir að miða við sjálfræðisaldurinn.

Frumvarpið inniheldur breytingar á 23 ákvæðum úr 16 lagabálkum og er hér um að ræða breytingar á lögum allt frá árinu 1938. Ég leyfi mér að segja hér að það sé kominn tími til að endurskoða þetta. Ég ætla að fá að nefna dæmi úr frumvarpinu en ég ætla svo sem ekki að eyða öllum tímanum í að fara yfir öll ákvæði að svo stöddu, frumvarpið liggur fyrir.

Fellt verði brott aldursskilyrði landsréttardómara og hæstaréttardómara sem er nú miðað við 35 ár. Þetta ákvæði er, að undanskildu aldursskilyrðinu, flott fyrirmynd þar sem málefnaleg skilyrði eru lögð fram um veitingu starfsins. Má nefna skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt, að einstaklingurinn sé lögráða, hafi aldrei misst forræði á búi sínu, ekki hlotið fangelsisdóm og sé útskrifaður lögfræðingur með minnst þriggja ára starfsreynslu á viðkomandi sviði. Jú, og svo skiptir auðvitað líka máli mat hæfnisnefndar. Þarna er búið að skrifa upp hina fullkomnu uppskrift að dómara. Til hvers þarf þá að kveða á um aldursmörk? Þá verð ég að segja frá því að hér voru samþykkt lög sem felldu brott aldursskilyrði héraðsdómara fyrir rétt rúmum þremur árum og tel ég ekkert hafa komið fram á þeim tíma síðan sú breyting tók gildi sem teflir þessu mikilvæga embætti héraðsdómara í hættu vegna aldurs umsækjendanna eða dómaranna. Lagt er til að fella brott þetta aldursskilyrði um 35 árin. Hin skilyrðin ættu að duga til að velja hæfasta einstaklinginn.

Vorið 2021 voru samþykktar breytingar með lögum nr. 50/2021 þannig að felld voru brott skilyrði um að einstaklingar hefðu náð 30 ára aldri til að verða lögreglustjórar, sýslumenn og héraðsdómarar. Þar segir í greinargerð með lögunum, með leyfi forseta:

„Kveðið er á um minni háttar breytingar á almennum hæfisskilyrðum ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra sem eru staðgenglar lögreglustjóra, frá því sem nú gildir. Aldursskilyrði lögreglustjóra verður afnumið og menntunarskilyrði lögreglustjóra uppfært. Taka skal mið af starfsreynslu og menntun við slíkar skipanir og ætti aldur ekki að vera útilokandi þáttur.[…]

Séu atvik með þeim hætti að einstaklingur hafi að baki slíka menntun og reynslu að hann uppfyllir að öllu leyti þær kröfur sem gera verður til lögreglustjóra er ekki talin ástæða til að setja það viðbótarskilyrði að hann hafi náð 30 ára aldri.“

Við undirbúning fyrir frumvarp mitt fór ég í gegnum ræður þingmanna varðandi þetta ofangreinda mál, nefndarálit og greinargerðir og frumvarpið auðvitað og ég fann hvergi drepið á þessu afnámi aldursskilyrða. Mér þykir því augljóst að það hafi ekki mætt mikilli mótstöðu og fagna því að hér voru hv. þingmenn tilbúnir til að gera þessar breytingar og leggja til að aðra þætti ætti að leggja til grundvallar við skipun í þessar mikilvægu stöður í samfélagi okkar. Kröfurnar eru skrifaðar út í lögunum og aldur ætti ekki að skipta máli.

Aðrar aldurskröfur snúa að því að þann einn megi kveðja til fyrir dóm sem dómtúlk, táknmálstúlk, þýðanda eða kunnáttumann sem er orðinn 20 ára að aldri. Ég fæ ekki skilið hvers vegna sjálfráða einstaklingur með viðeigandi þekkingu og hæfni í t.d. táknmáli megi ekki sinna þessu starfi fyrr en hann hefur náð 20 ára aldri. Ef ætlunin er að viðkomandi hafi meiri reynslu en 18 ára einstaklingar búi yfir þá verður bara að skrifa það út í lögunum. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að það sé ætlunin hér.

Svo eru það áfengismálin, heita kartaflan. Það má vel vera að sumir telji afskaplega málefnaleg rök liggja að baki þess að einstaklingum sé ekki heimilt að versla vín undir 20 ára aldri. Þú mátt það auðvitað alls ekki 19 ára eins og staðan er í dag. En hvers vegna að stoppa við 20 ára aldurinn? Er ekki miklu hollara fyrir heilann að setja markið við 25 ár eða 30 ár? Er ekki bara jafnvel betra að miða við 50 ár því að þá er einstaklingurinn alveg örugglega kominn með góðan smekk á góðu víni? Nei, það er ekki málefnalegt. Svo er auðvitað mjög fræg línan um að þú hafir rétt til að ganga í hjónaband en þú mátt aldeilis ekki skála í brúðkaupinu þínu ef þú ert 18 ára. Þessa umræðu þurfum við að taka þó svo að þessi dæmi hafi kannski verið heldur ómálefnaleg. Þó að þetta ákvæði um áfengiskaupin muni kannski mæta töluverðri andstöðu þarna úti og örugglega hérna inni líka þá vona ég að við getum átt málefnalega umræðu um önnur þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að einhverju allt öðru og ég tel að væri mjög gott að eiga samtal um.

Þá verð ég að fá að nefna að 18 ára fjárráða einstaklingur má reka fyrirtæki. Sá einstaklingur hefur jafnvel aðra í vinnu hjá sér og hefur þar af leiðandi áhrif á fjárhag annarra einstaklinga. Segjum sem svo að þessi einstaklingur reki veitingastað eða jafnvel hótel. Hann má þá ekki selja vín á veitingastaðnum sínum því að hann hefur ekki náð vissum aldri, jafnvel þótt hann drekki ekki vínið sjálfur, sem vissulega væri alveg hræðilegt viðskiptamódel. En einstaklingurinn ber samt sem áður algjöra ábyrgð á fjárhagslegum málefnum fyrirtækisins sem að mínu mati vegur mun þyngra en það hvort þessi einstaklingur fái sér sjálfur sopa eður ei. Því legg ég til að breyta almennu skilyrði laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem segir nú að umsækjandi um leyfi til reksturs starfsemi sem fellur undir tiltekna gistiflokka og veitingastaðaflokka með heimild til áfengisveitinga skuli vera lögráða og hafa náð a.m.k. 20 ára aldri á umsóknardegi. Þetta finnst mér ósanngjarnt og ég legg til að miðað verði við 18 ára og miðað verði hér eftir við þann aldur sem einstaklingur má reka fyrirtæki í þessum tilteknu gisti- og veitingastaðaflokkum án vínveitingaleyfis í dag.

Forseti. Í frumvarpi þessu er ekki einungis kveðið á um lækkun aldursmarka í lögum heldur einnig tekin til skoðunar tilvik þar sem hámörk eru á aldri til að njóta tiltekinna réttinda í lögum. Það stendur t.d. í lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, að heilbrigðisstarfsmanni sé óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann nær 75 aldri. Það er þó hægt að fá undanþágu frá landlækni að því gefnu að skilyrði reglugerðar séu uppfyllt. Hér má velta fyrir sér hvort þörf sé á þessu marki, hvort markið sé nógu hátt í dag. Hvers vegna er miðað við 75 ár? Það virðist handahófskennt. Hið sama á við um reglur um aldursmörk flugmanna. Við þurfum að gæta þess að setja ekki handahófskenndar reglur því hæfni og færni fólks er væntanlega mjög mismunandi eftir aldri eins og ég hef reynt að sýna fram á í þessari ræðu minni.

Atvinnufrelsi er bundið í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það má alveg velta því fyrir sér og ég geri það hér hvort þessar handahófskenndu reglur falli raunverulega undir þá almannahagsmuni sem þarf til ef setja á atvinnufrelsinu skorður. Í þessu samhengi vil ég fjalla um breytingu í frumvarpinu á lögum um köfun, nr. 81/2018. Þar segir að aldurstakmark fyrir útgáfu skírteinis sem heimilar köfun í atvinnuskyni sé 20 ár. Ég legg til að miða sig við 18 ára aldurinn. Í lögunum er kveðið á um þær kröfur sem viðkomandi þarf til að fá útgefið skírteinið og þar eru heilbrigðiskröfur og menntunar- og hæfniskröfur. Því get ég ekki með nokkru lagi skilið hvers vegna aldurstakmarkið er 20 ár í lögunum og fæ ég ekki séð hvaða almannahagsmunir krefjist þess að atvinnufrelsi séu settar skorður með þessum hætti. Ekki get ég heldur séð hvort mat hafi verið lagt á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar við setningu þessara laga.

Við vinnslu frumvarpsins var gerð leit að þeim lögum sem fela í sér aldursskilyrði sem takmarka leyfi eða skyldu manna við annan og hærri aldur en 18 ára, svo og lögum sem fela í sér aldurshámark. Undanskilið frá frumvarpinu er ákvæði 4. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem kveðið er á um meðal kjörgengisskilyrða til forseta Íslands að kjörgengur sé hver 35 ára gamall maður. Tekur frumvarpið ekki á þeim aldursskilyrðum af formlegum ástæðum vegna þess hve örðugt er að breyta einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar, en það er mín von að slík breyting nái engu að síður fram að ganga í náinni framtíð. Hv. þm. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir hefur nú lagt fram mál sem miðar að þessari breytingu. Það var einstaklega gaman að fylgjast með umræðunni um það mál og ég gerði mér það til gamans að lesa kommentakerfið við fréttirnar og fylgdist svolítið með umræðunni, auðvitað af því að ég hafði áður lagt þetta mál fram. Mér fannst gagnrýnin heldur ómálefnaleg á köflum. Oft var talað um að með aldursskilyrðum séum við að setja einhver ósýnileg matskennd viðmið um virðingu og lífsreynslu einstaklinga. Þú sért svo miklu ábyrgðarfyllri þegar þú ert 35 ára heldur en 34 ára. Við eigum að sjálfsögðu að reyna eftir fremsta megni að setja ekki lög um einhverjar huglægar hugmyndir um lífsreynslu fólks af því að engir tveir einstaklingar eru eins og þess vegna eigum við ekki að binda slíkt í lög.

Virðulegi forseti. Virðing og lífsreynsla eru einstaklingsbundnir mannkostir og hafa ekkert með þau réttindi að gera sem lög okkar kveða oft á um. Ég ítreka að hægt er að mæla fyrir um eðlileg og málefnaleg skilyrði laga um hæfni sem ekki þurfa að hverfast um aldur. Það er nauðsynlegt og gott að við eigum umræðu um aldursmörk því að ef reglurnar okkar eru of handahófskenndar má jafnvel leiða að því líkur að um einhvers konar aldursfordóma sé að ræða og sérstaklega má leiða líkur að því þegar við erum að tala um aldurshámark. Aldursfordómar í víðum skilningi og aldursrannsóknir vísa yfirleitt til neikvæðrar mismununar gagnvart t.d. eldra fólki, fólki á miðjum aldri og unglingum og börnum. Ég legg fram þetta frumvarp hér til umræðu um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við búa í samfélagi þar sem tækifæri eru háð aldri eða viljum við að fólk eigi jafnan aðgang að tækifærum óháð því hvort það er 18 ára, 20 ára, 67 ára eða 71 árs?

Virðulegi forseti. Ég legg til að við lok 1. umræðu fari málið til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.