154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

öryggis- og varnarmál í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

[10:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, hér er spurt um viðbrögð við breyttum heimi í raun og veru. Fyrst aðeins varðandi það sem heyrst hefur frá fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi væntanlegum frambjóðanda í forsetakosningum. Það eru í sjálfu sér ekki ný skilaboð frá Trump að hann gerir kröfu til þess að NATO-ríkin auki við framlög sín til varnarmála. Það eru ekki mörg ár síðan NATO-ríkin höfðu 2% sem viðmið en nú er það orðið lágmark. Það sem við höfum séð vera að gerast um alla Evrópu á undanförnum árum, og ég hygg að núna séu ríkin orðin 19 sem eru einmitt farin að uppfylla 2% lágmarksskilyrði — þetta er ekki vegna orða Trumps, þetta er vegna þess að heimurinn hefur breyst. Það geisar stríð í Evrópu í dag. Í dag er barist á vígvellinum í Úkraínu. Þar er verið að takast á um ákveðin grunngildi um það hvort virða beri alþjóðalög, hvort landamæri skipti máli. Þar erum við annars vegar að sjá lýðræðisríki í vörn og hins vegar eins konar einræðisríki takast á. Og þegar Þjóðverjar stórauka nú við vopnaframleiðslu sína er það ekki vegna orða Trumps, það er vegna þess að heimurinn er breyttur. Hvaða afleiðingar hefur það? Hvaða viðbrögð eiga við að sýna vegna þess? Ja, við erum NATO-ríki. Fyrir norðvestursvæðið er búið að endurskilgreina stöðuna innan NATO. Við erum hluti þess svæðis sem hefur núna komið til endurskoðunar. Það er verið að efla eftirlit á okkar svæði. Nýlega tók Alþingi til endurskoðunar þjóðaröryggisstefnuna (Forseti hringir.) og það var tiltölulega lítið rætt um þessi mál í tengslum við það. (Forseti hringir.) En ég er með í mínu ráðuneyti vinnu við að skoða sérstaklega þörfina fyrir endurskoðun á því sem snýr sérstaklega að varnarmálunum.