154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

öryggis- og varnarmál í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

[10:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega fagna síðustu orðum ráðherra. Ég vona að samsetning ríkisstjórnarinnar leiði ekki til þess að við mótum ekki okkar eigin sjálfstæðu varnarstefnu. Auðvitað fer margt fram innan þjóðaröryggisráðsins en á þessum tímum eigum við að mínu mati að móta varnarstefnu. Ef ráðherra er með eitthvað svipað í huga þá fagna ég því sérstaklega því að við verðum að hafa plan, við getum ekki alltaf lifað á því að þetta reddist. Við getum ekki leyft okkur að haga okkur þannig þegar kemur að öryggi borgaranna og öryggi þjóðarinnar þegar það er undir. Þjóðir Evrópu eru að leggja meira fram til hernaðarmála, ekki síst í ljósi þess að við erum í baráttu um að verja frelsið, verja lýðræðið, verja jafnrétti, verja mannréttindi um alla Evrópu. En þessi orð Trumps hafa grafið undan NATO. Það sjá það allir. Það er mikil umræða í Evrópu um þetta allt, að þau orð hans hafi grafið undan NATO. Þess vegna spyr ég: Hvaða plan erum við með í gangi (Forseti hringir.) til þess að treysta og byggja undir tvíhliða varnarsamninginn við Bandaríkin? Hvaða samtal hefur átt sér stað?

Mig langar líka rétt í lokin að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki undir skoðanir fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, Anders Fogh Rasmussen, (Forseti hringir.) um að hleypa Úkraínu inn í NATO sem allra fyrst og hernumdum svæðum innan Úkraínu verði bara hleypt inn þegar búið er að frelsa þau. Það eru þessar tvær spurningar sem ég myndi gjarnan vilja fá svar við.