154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

Gjaldtaka á friðlýstum svæðum.

[11:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna hér í upphafi að ég er svo kvefuð að ég heyrði ekki alveg allt sem hæstv. ráðherra sagði og kann að hafa misst af mikilvægum atriðum. Í mínum huga er kannski það sem mestu skiptir í þessari umræðu og stefnumótun á þessu sviði að við lítum á ósnert víðerni Íslands og þjóðgarða sem okkar náttúrulegu auðlindir, sem þau eru. Þá snýst þetta um aðgang að takmarkaðri auðlind sem er afar verðmæt og sjaldgæf. Við getum reynt að reikna það út í krónum og aurum en það hefur kannski mjög lítið upp á sig. Hún er verðmæti í sjálfu sér og okkar skylda er að koma í veg fyrir að auðlindin sé ofnýtt, að það sé farið yfir þolmörkin, hvort sem þar er um að ræða náttúruverndina, eins og hæstv. ráðherra nefndi, eða þá upplifun ferðamannsins eða þess sem þangað kemur af því að hér er náttúrlega samspil náttúruverndar og ferðaþjónustu alveg í brennidepli. Hér reynir á að það virki saman þegar við erum að tala um að nýta gjaldtöku til að stýra aðgangi að náttúruverndarsvæðum, friðlýstum svæðum, þjóðgörðum og öðru slíku.

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það sé löngu orðið tímabært að við komum okkur saman um hvernig við ætlum að gera þetta, hvernig við ætlum að láta það virka að koma í veg fyrir að við hreinlega ofnýtum þessa auðlind sem víðerni okkar eru en höldum líka úti sjálfbærri ferðaþjónustu, það er þess vegna sem fólk vill koma til okkar og af því höfum við tekjur sem skipta mjög miklu máli. En við vitum líka og við eigum ekki að vera feimin við að viðurkenna það að það er ekkert að því að setja hóflegt nýtingargjald eða aðgöngugjald að takmarkaðri náttúrulegri auðlind. Þetta er í rauninni sama prinsippið og á við um aðrar auðlindir. (Forseti hringir.) Ég held að við ættum að slá í hestinn og komast að endanlegri niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.