154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

Gjaldtaka á friðlýstum svæðum.

[11:24]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni og ég tek undir sjónarmið hv. þingkonu, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem komu fram í ræðu hér áðan. Það hefur lengi verið kallað eftir því að stjórnvöld móti stefnu þegar kemur að gjaldtöku á friðlýstum svæðum. Í könnun sem framkvæmd var árið 2022 kom fram að 66% landsmanna eru fylgjandi gjaldtöku fyrir þjónustu á helstu ferðamannastöðum á friðlýstum svæðum og þjóðgörðum og að 49% voru fylgjandi gjaldtöku fyrir aðgengi að slíkum svæðum. Það kemur ekki á óvart þar sem gríðarleg fjölgun hefur orðið í þeim fjölda ferðamanna sem hingað koma til lands og aðeins í fyrra heimsóttu um 2,2 milljónir ferðamanna Ísland. Þrátt fyrir þetta bólar lítið á heildstæðri stefnu stjórnvalda í þessum málum. Tilkynnt var síðasta sumar að hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefði komið á samstarfi við Ríkiskaup um undirbúning að útboði á rekstri og umsjón salerna á völdum svæðum. Það er gott og blessað að ferðamenn hafi aðgang að klósettum þegar þeir heimsækja þessi svæði en það sem liggur á er að vernda náttúruna áður en það verður of seint.

Á síðustu misserum hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið mikinn í fjölmiðlum og lýst því yfir að innviðir landsins þoli ekki að taka á móti fleiri hælisleitendum. Þeir benda á þann fámenna hóp og kenna honum m.a. um aukið álag á heilbrigðiskerfi og á húsnæðismarkaði landsins. Í fyrsta lagi ætti Sjálfstæðisflokkurinn að líta í eigin barm en hann hefur verið við stjórnvölinn meira og minna síðustu áratugi og getur því bent á fáa aðra en sig þegar kemur að stöðu innviða hér á landi.

Í öðru lagi fylgir þeim milljónum ferðamanna sem koma hingað til lands aukið álag á nær alla innviði. Þeir nota heilbrigðisþjónustu, þeir leigja Airbnb-íbúðir og stærstur hluti þeirra kemur hingað til lands til að skoða okkar stórbrotnu náttúru. Náttúran okkar er ekki óþrjótandi auðlind. Hún getur ekki tekið við stöðugt fleiri ferðamönnum, sama hversu mikið við rukkum hvern og einn þeirra fyrir að nota klósettin eða leggja í bílastæðin. Hyggst hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setja einhvern takmörk á fjölda þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands eða verða gróðasjónarmið fárra hagsmunaaðila alltaf valin fram yfir náttúru og loftslagsmarkmið?