154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins.

[11:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði að nota tækifærið og koma hér og taka undir orð þeirra hv. þingmanna sem hafa komið hér á undan. Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið skipulagsleysi í störfum og dagskrá þingsins. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Það er mjög erfitt að undirbúa sig. Flestir nefndarfundir, dagskrár, koma oft seint um kvöld eða morguninn áður en nefndarfundirnir eru haldnir. Dagskrár þingsins koma oft ekki fyrr en að sliga í miðnætti. Svo er ætlast til að við getum átt hér í almennilegum umræðum um mál þegar þeim er bara hent hingað og þangað inn og út af dagskrá með engum fyrirvara. Hæstv. ráðherrar hafa talað um að það þurfi betri skilvirkni hjá ýmsum stofnunum hjá ríkinu en ég held að það þyrfti að byrja hér innan húss á því að bæta skilvirkni og skipulag.