154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég var í nefndinni í smátíma og þakka fyrir samstarfið þar. Ég sá að allir voru mjög lausnamiðaður við reyna að ná yfir öll þessi vafamál og sauma upp í þessa óvissu sem er hérna í gangi. En óvissan — eins og hv. þingmaður kom að áðan í andsvari er verið að reyna að stoppa upp í öll göt og reyna að passa upp á einhverja heildarsýn en það er svo margt sem á eftir að svara. Auðvitað getum við ekkert svarað því hvernig náttúran heldur áfram að hreyfa sig en við getum samt tekið ákveðnar ákvarðanir sem hjálpa okkur að búa til mynd sem við getum þá fyllt upp í. Ein af þeim sviðsmyndum sem við þurfum alveg nauðsynlega að skoða er einmitt efnahagsstjórnin sem fylgir óhjákvæmilega í kjölfarið á viðbrögðum. Af því að ég er í fjárlaganefnd þá opna ég yfirleitt öll frumvörp og kíki á áhrif á ríkissjóð og hérna er fjallað um þetta; þetta eru svona 2,7 milljarðar, 1,6 milljarðar kannski sem kostnaður vegna frumvarpsins verður. En svo er líklegt, eins og segir hérna, með leyfi forseta, „að fleiri aðilar sæki um þegar frá líður“, að það séu ekki endilega allir komnir inn í að sækja um þetta ferli. Núna þegar breytingartillögurnar framlengja í rauninni frestinn um tvo mánuði þá kannski verða þau áhrif aðeins meiri, ég veit það ekki. En þá finnst mér vanta það sem þingsköp kveða á um, að þegar nefnd gerir verulegar breytingar á frumvörpum eigi að fylgja kostnaðarmat með. Þannig að ef það á að skoða arðgreiðslurnar væri áhugavert að fá til viðbótar létt yfirlit um kostnaðarmatið sem fylgir þessum auka tveimur mánuðum.