154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[21:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er augljóst að einhvern veginn þarf að borga fyrir hlutina og hér erum við vissulega búin að sammælast um ákveðna hluti sem við ætlum að verja okkar sameiginlegu fjármunum í. Hvaða leið er valin til þess er auðvitað það sem er einfaldast að deila um og eins og hefur komið hérna fram munum við Píratar sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu því að að sjálfsögðu þarf að fjármagna þetta og við erum ekki sammála því hvaða leið er farin að því.

Mig langar til að vekja athygli á því að í ríkiskassanum hverju sinni eru sirka 1.500 milljarðar. Þetta snýst ekki um það að peningarnir séu ekki til. Þetta snýst um forgangsröðun. Þetta snýst um það hvað við veljum að verja peningunum í, hvaðan við veljum að taka þá og í hvað við veljum að setja þá. Það að stilla því upp með þeim hætti að það séu engir aðrir kostir í stöðunni er einfaldlega rangt. Sömuleiðis eru áhrifin sem þetta hefur á efnahaginn eitthvað sem er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni hversu ábyrgðarlaus þessi ríkisstjórn er í því að stýra efnahagnum, (Forseti hringir.) nota þau tæki sem hún hefur til þess að stýra því hvernig efnahagurinn hefur áhrif á heimilin í landinu. Það er einhvern veginn (Forseti hringir.) alltaf bara hlaupið til og gert eitthvað. Hugsum þetta aðeins betur.