154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga.

[15:32]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og væntanlega hefur ekki farið fram hjá hv. þingmanni þá hefur sá ráðherra sem hér stendur lagt mikla áherslu á það og ríkisstjórnin hefur sammælst um að samræma regluverk og löggjöf okkar í útlendingamálum við löndin í kringum okkur og þá erum við fyrst og fremst að horfa til Norðurlandanna. Í frumvarpinu sem ég mun mæla fyrir hér á eftir legg ég til að felld verði úr gildi 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga, sem er séríslensk regla er varðar sérstakar ástæður og sérstök tengsl, þ.e. verndarmál eða Dyflinnarmál. Það er ekkert annað Norðurlandanna með sambærilega reglu og tel ég víst að þetta dragi töluverðan fjölda fólks hingað til lands í leit að vernd. Ef hv. þingmaður hefur fylgst vel með þegar þetta frumvarp var í samráðsgátt þá var í upphaflegum drögum gert ráð fyrir að minnka verulega talsmannaþjónustu og sömuleiðis að 18 mánaða reglan yrði felld út. En eftir að málið hafði verið í meðförum í samráðsgátt þá ákvað ráðherra að gera ekki þá breytingu að svo stöddu.