154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:46]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þegar litið er til stöðunnar hér á landi er ljóst að það blasa við okkur fjölmargar áskoranir í málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks. Árlegur kostnaður í málaflokknum hefur margfaldast og hefur farið úr því að vera 400 millj. kr. árið 2014 í ríflega 20 milljarða kr. á síðasta ári. Þessa kostnaðaraukningu má m.a. rekja til gríðarlegrar fjölgunar umsókna og langs málsmeðferðartíma. Þá er ljóst að innviðir okkar, þar á meðal húsnæði, heilbrigðis- og menntakerfi, eru undir miklu álagi og eru ástæður þess margþættar. Ein af þeim er mikill fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá hefur málsmeðferðartími hjá Útlendingastofnun, bæði við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd svo og á leyfasviði stofnunarinnar, lengst gríðarlega og er orðinn langtum lengri en ásættanlegt er. Hið sama gildir um málsmeðferðartíma hjá kærunefnd útlendingamála. [Háreysti á þingpöllum.]

(Forseti (BÁ): Ég geri hlé á þessum þingfundi. Við gerum hlé á þessum þingfundi í fimm mínútur meðan komið er á ró í húsi. Fundi er frestað til klukkan fimm mínútur í fjögur.)