154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:30]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguna á þessu mikilvæga máli. Þegar markmið þessa frumvarps er skoðað þá er augljóst mál að ætlunin er að fækka umsækjendum, eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Að teknu tilliti til fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd, húsnæðiseklu og vaxandi álags á innviði landsins er ekki raunhæft að taka á móti rúmlega 4.000 umsóknum um alþjóðlega vernd á ári á næstu árum.“

Síðan er fjallað um það í greinargerðinni að áætlað sé að allt að 6.000 manns sæki um vernd á árunum 2024 og 2025. Í hittiðfyrra, árið 2022, tókum við á móti 582 umsóknum á hverja 100.000. Skandinavía var með 80. Spurning mín til ráðherra er þessi: Hvað ef þetta frumvarp verður að lögum og markmiðinu um fækkun verður ekki náð? Hvað ef við munum taka á móti 6.000 manns í ár og á næstu tveimur árum? Hvað ætlar ráðherrann að gera? Er ekki kominn tími til þess að við förum að beita heimild í Schengen-samkomulaginu um að taka upp innra eftirlit á landamærum (Forseti hringir.) okkar líkt og Danmörk, Svíþjóð og Noregur?