154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þær breytingar sem ráðherra hefur hug á að gera í framhaldinu varða t.d. það að á Norðurlöndunum eru strangari kröfur gerðar til að mynda varðandi rétt til fjölskyldusameiningar. Nú er verið að leggja það til hér í þessu frumvarpi til laga að fólk geti sótt um fjölskyldusameiningu að tveimur árum liðnum en á hinum Norðurlöndunum eru t.d. aðrar kröfur gerðar, eins og hvað varðar kunnáttu í viðkomandi tungumáli í viðkomandi landi, að fólk hafi tekjur, að fólk sé í húsnæði o.s.frv. Þar t.d. liggja þær breytingar sem ég hef hug á að gera í framhaldinu.