154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á að leiðrétta hv. þingmann með það að Ísland hafi eitt allra ríkja í heiminum verið að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd. Þetta er ekki rétt. Ég veit ekki betur en að öll ríki heims, ég veit ekki um neina undantekningu, hafi verið að veita borgurum Venesúela vernd á ákveðnu tímabili, frekar löngu tímabili meira að segja. Það hvort dvalarleyfi heitir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, staða flóttamanns eða viðbótarvernd, ég held að fólki sé bara alveg sama um það. Sannarlega leitaði hingað stór hópur en allt bendir til þess að það hafi nú fyrst og fremst orsakast af því að það kom hingað stór hópur þar sem hér voru atvinnutækifæri. Þau vissu að Ísland væri gott land, sem ég hefði haldið að væri ágætt, og í kjölfarið komu fleiri. Það er þannig. Ég veit alla vega ekki til þess að það hafi sökkt Íslandi í svartan sæ enn þá. Hv. þingmaður talar um að hann styðji markmið frumvarpsins um að fækka tilhæfulausum umsóknum. Spurningin sem mig langar til að beina til hans núna er: Telur hann umsókn einstæðrar konu með ungabarn sem lendir á götunni í Grikklandi, umsókn manns sem þarfnast hjólastóls til að komast um og kannski á engan hjólastól, umsóknir fylgdarlausra barna (Forseti hringir.) sem ekkert er vitað hvað verður um á götunni á Grikklandi tilhæfulausar?