154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, um alþjóðlega vernd. Þessar umræður hér í þinginu hafa verið áhugaverðar, fróðlegar fyrir margra hluta sakir. Ég hef lýst því margítrekað yfir að við í Viðreisn erum meira en reiðubúin í samtal um þessi mál. Þó að ég segi að vissulega hafi forystu af hálfu ríkisstjórnarinnar skort hvað það varðar þá engu að síður skynja ég það að það er ákveðin hreyfing og ákveðin breyting af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, sem við vitum að eru svolítið ólíkir, en ég held að allir flokkar og þingmenn flokkanna séu meðvitaðir um þá miklu ábyrgð sem felst í því að vera í pólitík og undirstrika ákveðin réttindi, mannréttindi, þau réttindi sem felast í því að búa og lifa og hrærast í lýðræðissamfélagi.

Við þurfum að taka þetta samtal og halda áfram að vinna þetta. Á það höfum við í Viðreisn lagt áherslu. Við sjáum að samfélagsgerðin okkar er búin að gjörbreytast bara á örfáum árum. Fyrr í dag átti ég samtal hér úr ræðustól við hæstv. forsætisráðherra bara um það álag og breytingu sem hefur átt sér stað á menntakerfinu á síðustu árum og við verðum að taka tillit til þess. Ég vil hins vegar draga það fram strax hér í upphafi, og mér hefur þótt það lita svolítið þessa umræðu, að mér finnst allt of algengt að við grautum öllum útlendingamálum saman undir einn og sama hattinn.

Ég held að það sé ágætt að við viðurkennum það að við búum í fjölþjóðasamfélagi. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og ég vona að það verði engin breyting þar á. Því fylgja bæði réttindi og skyldur. Ef við ætlum að hafa það þannig að við ætlum að auka hagvöxt til lengri tíma, ef við ætlum að auka og styrkja lífsgæði okkar til lengri tíma, ef við ætlum að styrkja heilbrigðiskerfið okkar til skemmri og lengri tíma, ef við ætlum að styrkja menntakerfið til skemmri og lengri tíma, ef við ætlum að halda hér uppi öflugum byggingariðnaði, svo ég tali nú ekki um aðrar þjónustugreinar eins og ferðaþjónustuna, þurfum við á útlendingum að halda. Þannig er það bara og þá viljum við fá hingað fólk sem tekur þátt af fullum krafti í íslensku samfélagi eins og það hefur gert nokkuð vel fram til þessa en síðan er eins og við í pólitíkinni séum svolítið að missa tökin. Sumir flokkar sjá sér hag í því að grauta þessu öllu saman og segja að þeir 70.000 útlendingar sem hafa flutt hingað til landsins og eru að verða hluti af okkar grunnstoðum í samfélaginu séu vandamálið. Það er stundum ekki hægt að lesa annað í það.

Við erum hér að tala um afmarkaðan hluta, alþjóðlega vernd. Það er talað um að það sé allt stjórnlaust. Ég hef ekki dregið dul á að mér hefur þótt vanta forystu, ekki síst af hálfu flokks sem er búinn að vera hér í 11 ár með forystu í nákvæmlega þessum málaflokki. Um tíma sáum við glitta í framsýni, stefnu, hugsjónir, að byggja upp fjölmenningar- og fjölþjóðlegt samfélag sem þar sem allir geta eða flestir geta a.m.k. lifað í sátt og samlyndi. Við sáum að undir forystu bæði Hönnu Birnu og síðan Ólafar Nordal, fyrrum hv. þingmanna og ráðherra sem beittu sér fyrir þverpólitískum hópi til að reyna að vinna þetta svolítið eins og önnur Norðurlönd — en af því að hér er alltaf verið að tala um Norðurlöndin: Já, ég er sammála því, við eigum að líta til Norðurlandanna. Þau eru ekkert öll eins en mér er minnisstæð nýleg umræða sem ég átti við norska Hægriflokkinn, sem er systurflokkur til að mynda Sjálfstæðisflokksins. Ég spurði hann: Hvernig er útlendingaumræðan hjá ykkur? Er allt að verða vitlaust? Hann horfði á mig og sagði: Nei, nei, eiginlega ekki, en það eru ákveðin viðfangsefni og vandamál sem við erum að taka á og takast á við.

Það var ekki verið að nota tækifærið og kynda undir og ýta undir skautun í samfélaginu. Þar var pólitísk forysta fyrir því, bæði af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem er í Noregi er líka af hálfu Høyre sem var á undan við það að leiða ekki bara umræðuna í jörð heldur til þess að taka mannúðlega en af festu og af raunsæi á útlendingamálum, hælisleitendamálum. Það er það sem ég sakna svo sárlega af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem hefur verið í sjö ár. Það eina sem hún hefur fram að færa er að segja: Þið í stjórnarandstöðunni, þið eruð bara þvælast fyrir. Það er nokkurn veginn eina svarið. Þegar við t.d. í Viðreisn — við töluðum minna en þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og ég held að það hafi bara verið tveir eða þrír af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem töluðu í þessu máli á síðasta ári og ríkisstjórnin hefur fengið allt fram sem hún hefur viljað, meira og minna. Það segir mér að það hefur ekki verið stjórn, alla vega ekki þor eða kjarkur til þess að taka á ákveðnu viðfangsefni sem við vitum alveg að þarf að gera. Þess vegna segi ég: Það er verið að grauta þessu öllu saman. Ég skynja það til að mynda þegar við í Viðreisn fórum um og lögðum sérstaka áherslu á menntamálin og heimsóttum menntastofnanir, líka heilbrigðisstofnanir, að stundum var því miður undirtónninn sá að það væru of margir útlendingar. Svo spyr maður: Eru svona margir hælisleitendur? Nei, það er ekki það heldur bara útlendingar. Það er út af því að fólk hefur ekki séð forystu af hálfu ríkisstjórnar í þessum málum.

Það væri rosalega einfalt fyrir mig að standa hérna og hugsa um skoðanakannanir til að mynda og segja bara: Heyrðu, nú ætlum við að velja annaðhvort bara allt galopið eða allt lokað, bara taka harðlínu í þessum málum, loka sem mest á Schengen-fólkið eða EES-fólkið sem kemur í gegnum EES, ekki hugsa neitt um það hvaða afleiðingar það hefði fyrir okkur úti í Evrópu — enda erum við að sjá það að Sjálfstæðisflokkurinn er að hökta við það að verja EES-samninginn. Það kemur ekkert lengur á óvart í þessum heimi.

Hvað erum við þá að tala um? Við erum að tala um 4.000 manns samkvæmt þessu frumvarpi, það er verið að tala um það. Það er Úkraínufólkið sem við styðjum vonandi öll eindregið að verði tekið á móti og það er frábært að sjá hvernig það hefur náð takti í íslensku samfélagi og er hluti af okkar samfélagi hvar sem borið er niður. Það sama má segja um Venesúelahópinn. Já, það má alveg taka undir þá gagnrýni að þetta var tekið einhliða pólitískt til að slá einhverjar pólitískar keilur af hálfu þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins á erlendri grundu, en ég hélt í einfeldni minni að þetta hefði verið rætt sérstaklega í ríkisstjórn: Hvernig tökum við á móti hugsanlega 1.000 manns frá Venesúela sem eru að flýja kommúnismann og pólitískar ofsóknir? Hvernig tökum við á móti þeim? Munum við styðja áfram við fólkið inn í skólakerfið, inn í heilbrigðiskerfið? Ég hélt að ríkisstjórnin hefði rætt þessi mál. Svo kemur þeim rosalega á óvart að það sé álag á innviði landsins en það á að kenna 400–500 manns um það ástand og það álag sem er núna á innviðum landsins af því að ríkisstjórnin er í sjö ár búin að vanrækja uppbyggingu innviða í samfélaginu.

Ég vara við þeirri skautun og Viðreisn varar við þeirri pólaríseringu sem er að eiga sér stað í dag. Við erum skelkuð við að sjá alls konar birtingarmyndir í samfélaginu eftir helgina af þeim hreina og klára rasisma sem birtist okkur eftir Eurovision til að mynda. Á báða bóga voru pólarnir alveg á fullu. Svo sjáum við og upplifum líka ákveðna örvilnan og ótta hér í þingsal í dag. Það sem má ekki gerast er að pólitíkin notfæri sér þessa stöðu. Ég held að minn ástkæri Bubbi Morthens hafi einmitt verið að vara við þessari miklu útlendingaandúð, þessum rasisma sem er verið að byggja undir og flokkar ætla að slá pólitískar keilur. Viðreisn ætlar ekki þangað. Viðreisn vill leggja sitt af mörkum og við skrifuðum bréf í haust til forsætisráðherra einmitt um það að við óttuðumst þessa skautum, að það kæmi á endanum einhver frelsari, einhver riddari á hvítum hesti sem ætlaði að leysa þjóðina undan þessu með einhverjum snilldarlausnum með rasískum undirtónum. En Viðreisn vill vera hluti af lausninni og það þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Já, við erum að taka hlutfallslega á móti fleirum með alþjóðlega vernd. Það þarf að taka á því. En þetta hefur byggst upp í boði Sjálfstæðisflokksins af því að hann hefur ekki undirbyggt risastórar ákvarðanir eins og það að taka á móti fólki frá Venesúela til að mynda, sem ég styð að sé gert. Ég sé bara þegar ég fer að heimsækja mömmu mína á Hrafnistu að þá er fólk af erlendu bergi brotið að byggja undir alla þjónustuna sem þar er. Takk fyrir það. En það þarf líka að segja að við þurfum að taka betur á þessum málum og það hefur vantað þessa forystu.

Ég vil hins vegar segja það, og ég vona að sé ekki að skaða hæstv. dómsmálaráðherra með því að segja að það er ákveðin breyting núna varðandi það hvaða tóna er verið að slá af hálfu Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu. Eru þeir harðari? Eru þeir linari? Ég veit það ekki. Ég sé og heyri bara tóna sem vilja frekar leita lausna og ég er til í það samtal. Ég veit alveg hvaða manneskju hæstv. ráðherra hefur að geyma og ég veit að ráðherra vill beita sér fyrir því að það verði hér fastari tök, ákveðnari tök á útlendingamálum, sérstaklega þessu máli sem við erum að tala hér, um alþjóðlega vernd. Það er ýmislegt sem við eigum eftir að ræða frekar, viðkvæmir hlutir eins og það sem er ekki í þessu frumvarpi. Margir hafa haft samband við mig og sagt: Hvað með lokuðu búsetuúrræðin og allt það? Ég hef sagt: Ég er tilbúin í umræður um móttökumiðstöðvar. Ég er til í hana. Línan sem við í Viðreisn drögum í sandinn er að við setjum ekki börn í lokað búsetuúrræði. Þar er línan sem ég dreg í sandinn. Ég er reiðubúin í öll önnur samtöl af því að við þurfum að ná betri tökum á umhverfinu eins og það er í dag.

Ég geri mér grein fyrir því að þó að mér finnist öllu grautað saman og alið á ákveðinni útlendingaandúð sem er búin að vera hræðilega áberandi núna á síðustu dögum, m.a. út af því að fólk í pólitíkinni er að slá ákveðna tóna — það breytir ekki því að ég þarf líka að horfast í augu við þennan veruleika sem er að við erum ekki með stjórn á þessum málum. Ég vil verða að liði þannig að við náum betri tökum og betri stjórn á þessum málum. Ég er sammála því að við eigum að líta meira til Norðurlandanna og það kallar á ákveðnar ákvarðanir og við eigum að læra, við eigum ekkert að vera feimin við það, við eigum að læra af því sem hefur verið gert vel á Norðurlöndum og við eigum líka að læra af því sem hefur gengið illa, eins og t.d. í Svíþjóð. Þar eru ýmis málefni sem ég hef m.a. rætt við sænska þingmenn sem segja þvert yfir litrófið að þeir hefðu átt að gera hlutina öðruvísi. Það eigum við óhikað að segja. En stóra línan er sú, af minni hálfu a.m.k., að við eigum að gera allt sem við getum til að gera þetta ekki að kosningamáli. Ég hef líka verið gagnrýnd fyrir það að ég sé naívisti að segja að það verði ekki að kosningamáli. Við upplifum að það eru flokkar sem vilja hafa þetta og gera þetta að kosningamáli.

Þó að þetta sé viðkvæmt málsefni og verkefni er þetta ekki það flókið. Það þarf bara að hafa forystu í þessu máli og það þarf líka að vera þannig að við sem erum þvert á hið pólitíska litróf séum tilbúin í þetta samtal. Við erum greinilega svolítið mistilbúin í þetta samtal, en ég vil hvetja þá flokka sem ekki hafa viljað taka þátt í þeim leiðangri að reyna að ná samstöðu um þetta til að reyna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að nálgast umræðuna á mennskan og mannúðlegan hátt en líka með raunsæi. Það eru ýmsir þættir sem við þurfum að taka inn í þetta, hvort sem það er hvað við einfaldlega höfum bolmagn í fjárhagslega og samfélagslega, en við verðum að þora að segja nei við einu, og ég geri það, og það er að ég vil ekki þessa skautun í íslensku samfélagi. Ég vil ekki taka þátt í því að byggja undir ótta í íslensku samfélagi. Ég vil sjá pólitíska forystu þvert yfir flokka til að leiða þessi mál áfram inn í öflugri og bjartari framtíð fyrir Ísland. (Forseti hringir.) Við getum gert þetta saman.