154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vil leyfa mér að segja að við í Viðreisn munum fara mjög vel yfir þetta mál. Það er margt sem er áhugavert. Þetta er ekki stórt mál. Það er eiginlega það sem ég sakna, að Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin hafi ekki treyst sér til að koma með meira heldur en bara þetta. Það er verið að tala um inngildingu og íslenskukennslu m.a. og ég hefði gjarnan viljað sjá það hér samhliða þessu. En já, ég lofa því að við í Viðreisn munum fara mjög vel yfir þetta í nefndinni með opnum huga, með þetta í huga, ekki síst það sem ég hef verið að fara yfir, að við verðum að reyna að ná einhverjum samhljómi um þetta. Ég er sannfærð um að það er meiri samhljómur í dag, myndi ég segja, heldur en hefur verið. En það er út af því að við erum að reyna að leggja okkur fram og ég vona að ríkisstjórnin reyni að gera það líka. Það eru tónar m.a. frá þingflokki hv. þingmanns þar sem mér finnst vera komið í eitthvert kapphlaup um yfirlýsingar í útlendingamálum en ég vona bara að skynsemin ráði, raunsæið ráði og við náum líka mennskunni og mannúðinni inn í þetta allt saman þannig að við getum, eins og annars staðar á Norðurlöndum, talað af einhverri yfirvegun en ekki tækifærismennsku um útlendingamál.