154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega margt vel gert í þessum málaflokki og ég vil nefna hér dæmi. Í kjördæmavikunni heimsótti ég skólaskrifstofuna í Árborg og í Reykjanesbæ. Þar er verið að vinna frábært starf með börnum af erlendum uppruna og það hefur verið samstarf milli Árborgar og Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar og það er aðdáunarvert. Ég hvet þingflokka til að fá forsvarsmenn þessarar skólaskrifstofu í heimsókn til að átta sig á því hvað þarna er verið að vinna gott starf.

Hitt vil ég segja að hér talaði hv. þingmaður um heildarsýnina og inngildinguna og hvað þetta sé mikilvægt og ég tek undir það. En það er mikilvægt að rýna frumvörp sem síðan koma líkt og þetta frumvarp sem við ræðum hér og máta það við, hvernig það passar við þessa heildarsýn og hvernig það passar við það sem við höfum gengist undir með barnasáttmálanum, að rýna frumvörpin út frá sjónarhorni barna. Það er best fyrir börn og ég held að ef við horfum á þetta frumvarp sem við erum að tala um hér út frá þeim sjónarhóli þá verði gerðar á því miklar breytingar.