154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forseta fyrir einmitt upphafsorðin á þessum þingfundi. Ég vil vera á svipuðum nótum því það eru, virðulegi forseti, ákveðin forréttindi að vera Íslendingur og búa við frið og öryggi. Það er ekki sjálfgefið. En það er um leið erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa flúið stríð, þann óhugnað og það svartnætti sem stríðinu fylgir. Ótti og örvilnan er hluti af því, eins og við upplifðum svo átakanlega hér í gær, og ég vil sérstaklega draga fram að það er gott að hvorki mótmælandinn né aðrir meiddust. Við höfum lengi stært okkur af því að eiga elsta þingið í heimi og vera líka það löggjafarþing sem hefur hvað minnstu öryggisvörslu. Ég tel það ekki vera vegna einfeldni heldur að það liggi nærri hjarta okkar að hafa þinghaldið opið og hver tilgangur þingsins er sjálfur. Vonandi höfum við áfram hér greiðan og opinn aðgang að þessu mikilvæga þinghaldi sem hér er.

Rétturinn til mótmæla í okkar samfélagi er líka algerlega ótvíræður. Það eru margar leiðir til þess og ýmsar þegar farnar, en þingið sjálft er friðheilagt eins og segir í stjórnarskránni og enginn má raska friði þess né frelsi, svo það sé skýrt. Alþingi er þungamiðjan í okkar lýðræðissamfélagi og hér þrífast alls konar skoðanir. Við erum ekki öll sammála en þannig er það líka og þannig á það líka að vera. En þinghelgin og málfrelsið úr þessum ræðustól er einn mikilvægasti kjarninn í okkar stjórnskipan, stjórnskipan sem byggir undir frelsi, mannréttindi og lýðræði sem hefur leitt okkur Íslendinga inn í meiri frið og öryggi en þekkist víðast hvar. Þetta frelsi hér í þingsalnum ber að virða, skilja og verja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)