154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[14:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að ítreka að þetta er auðvitað ekki innleiðing eins og margt af því sem var innleitt hér í tengslum við reglur um peningaþvætti. Þetta er ekki innleiðing á Evrópuregluverki, þetta er sjálfstæð innlend löggjöf þar sem við leitum hins vegar fanga í því sem önnur ríki hafa verið að gera. Það eru að sjálfsögðu fjöldamörg álitamál sem koma upp við að smíða svona löggjöf; hvernig nákvæmlega á að skilgreina hin viðkvæmu svið, bara svo að það sé sagt. Ég nefndi það hér áðan að þau eru öðruvísi hjá okkur en annars staðar á Norðurlöndum en þau eru líka ólík milli Norðurlandanna. Eigum við að miða bara við erlenda fjárfesta? Ég nefndi það hér að Noregur miðar við alla fjárfesta en fleiri ríki hafa farið þá leið að miða bara við erlenda fjárfesta og í ljósi þess að þetta er mikil umbreyting á þessu umhverfi var það að mínu viti rétt að taka það skref þó að ég hafi skoðað hinn valkostinn.

Raunverulegt kostnaðarmat — við gerum ráð fyrir mögulega 40 milljónum til viðbótar til menningar- og viðskiptaráðuneytis sem fari með framkvæmd laganna. Það fer með framkvæmd fyrri laga sem eru frá 1991 og á að fylgja þeim eftir. Ég nefndi hér áðan að við gerum ráð fyrir innheimtu þjónustugjalda upp í verulegan hluta af þessum kostnaði. Er þetta nægjanlegt til þess að lögunum sé fylgt eftir með viðunandi hætti? Já, við teljum það miðað við umfang erlendra fjárfestinga en þær eru auðvitað líka gríðarlega mismunandi að stærð. Það geta verið misflókin eignatengsl og svo hangir þetta auðvitað á vilja hins erlenda fjárfestis til að skila upplýsingum. Þar höfum við séð í núverandi lagaumhverfi mjög mismunandi dæmi í þeim fjárfestingum sem hafa verið teknar til skoðunar af því ráðuneyti sem fer með þessi mál.