154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nekt og nektarmyndir eru markvisst og í ógnvekjandi mæli notaðar gegn fólki eins og dæmin sanna, allt frá grunnskólabörnum til fólks í æðstu valdastöðum heimsins, sérstaklega konum. Í störfum þingsins í gær var rætt um stafrænt kynferðisofbeldi af virðingu og innsæi af hv. þingmönnum Evu Sjöfn Helgadóttur og Birni Leví Gunnarssyni, en sá síðarnefndi velti fyrir sér hvaða áhrif gervigreind myndi hafa á stafrænt kynferðisofbeldi, eða eins og þingmaðurinn orðaði það, með leyfi forseta:

„Þegar hver sem er getur gert hvað sem er hvað myndefni varðar þá munum við óhjákvæmilega leggja annars konar trúnað á það hvað myndefnið sýnir okkur.“

— Sem gagnast þolendum sem munu nú þegar geta varið sig með því að myndin sé gerð með gervigreind og sé þar af leiðandi ekki af þeim, hvort sem sú er raunin eða ekki.

Mig langar að snúa þessari umræðu aðeins í aðra átt. Við erum öll með líkama og undir fötunum erum við öll nakin. Það að til séu nektarmyndir sem staðfesta þetta er álíka skammarlegt og að vera með kennitölu eða setja stöðufærslu á Facebook sem sýnir inn í huga okkar. Stundum, en ekki alltaf, felst stafrænt kynferðisofbeldi í því að sýna að brotaþoli hafi kynferðislegar kenndir, sem er jafn eðlilegt og að finna til löngunar í mat, drykk eða samfélag. Nekt er einkamál og það er að sjálfsögðu ólöglegt að sýna nekt annars án leyfis og dreifa af því myndum eða myndskeiðum. Og eigin kynferðisleg nekt er heldur ekki eitthvað sem má miðla til annarra í þeirra óþökk. Vopnvæðing nektarmynda er hins vegar alfarið í boði samfélagslegra viðhorfa til líkama, til nektar, til kynferðislegrar virkni, til þess að vera manneskja. Ef við sem samfélag sammælumst um að það sé ekkert skammarlegt við það að til sé myndefni sem staðfestir að einstaklingur sé með líkama og þrár þá sláum við vopnin úr höndum þeirra sem vilja nýta slíkar myndir til kúgunar eða annars konar miska.