154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

hækkun stýrivaxta og áhrif þeirra á verðbólgu.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað hlutverk okkar hér að mynda og skapa þann lagaramma og útfæra þau verkfæri sem Seðlabankinn hefur í sínu verkefni þar sem það er hann sem ber ábyrgð á því verðbólgumarkmiði sem sett er, sem er 2,5%. Hann er sjálfstæður í sínum störfum, skipaður af forsætisráðherra og er þar í skjóli þess skipunartíma sem hann hefur innan þess lagaramma sem hann hefur. (Gripið fram í.) Ég er ekki talsmaður þess og lít reyndar svo á og það hefur hvergi í veröldinni gengið sérstaklega vel þegar vegið er að sjálfstæði Seðlabankans með einhverjum hætti, en það er okkar að skapa þennan ramma. Við sjáum hins vegar að verðbólgan er að fara niður þótt við myndum vilja sjá hana fara hraðar niður. Hún er að fara úr tæplega 10% og er komin niður í 6,6%. Við höfum til að mynda ekki horft á aukið atvinnuleysi í gegnum þá breytingu (Forseti hringir.) og það skiptir máli. Síðan má einnig benda á það að það eru líka uppi sjónarmið um að verðbólgan (Forseti hringir.) gæti þvert á móti verið vegna þess hve lengi vextir voru lágir og að þeir hækkuðu hægt fyrst, þannig að það er engin ein skoðun í þessu.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er takmarkaður við tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í seinni ræðu.)