154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Eitt af grunnstefjum sjálfstæðisstefnunnar er að lagaumhverfi skuli vera einfalt og skýrt. Það er ofboðslega mikilvægt fyrir fyrirtækin í landinu að þau viti nákvæmlega hver sá rammi er sem þau starfa innan en það er líka mikilvægt að hafa eftirlit með því að fyrirtæki starfi innan þess ramma. Þar af leiðandi þarf stofnanaramminn okkar að vera einfaldur og skýr. Við getum ekki verið að dreifa kröftum okkar víða. Þess vegna var það einmitt skrifað í stjórnarsáttmálann að stefnt skuli að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu og möguleikar kannaðir á frekari sameiningum, vegna þess að það eykur samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Markmiðið er að styrkja samkeppni innan lands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ég fagna því og heyri að ráðherra er hér á fullu að vinna þá vinnu.

Maður heyrir það svo skýrt þegar maður heimsækir fyrirtæki út um landið allt hversu mikilvægt það er að við séum ekki með íþyngjandi regluverk. Öll fyrirtæki sem eru samfélagslega ábyrg vilja regluverk. Þau vilja bara hafa það skýrt. Þau vilja ekki þurfa að leita til margra stofnana til að uppfylla einhver skilyrði heldur að þetta sé einfalt og skýrt. Það er það sem við eigum fyrst og fremst að vinna að.

Mig langar líka að nefna hér það sem fram kemur — þetta er svo viðamikil umræða — varðandi fjölmiðlana en hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kemur líka inn á það í máli sínu. Ég ætla að segja að ég lít ekki á fjölmiðla eins og hvert annað fyrirtæki. Fjölmiðlaumhverfið er mun flóknara en það. Það er grunnstoð lýðræðisins. Við sjáum það svo skýrt núna í því sem heimsbyggðin glímir við, í hryllilegu innrásarstríði Rússa í Úkraínu, hvernig Rússar beita fjölþáttaógnum þar sem þeir ráðast gegn lýðræðislegum samfélögum, m.a. í gegnum fjölmiðla, (Forseti hringir.) með falsfréttum og áróðursstríði. Þannig að það er líka ofboðslega mikilvægt að umhverfið í kringum fjölmiðla sé skýrt (Forseti hringir.) en það þarf að horfa til enn fleiri þátta.