154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dýrasjúkdómar o.fl.

483. mál
[11:58]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég flyt hér nefndarálit fyrir hönd atvinnuveganefndar og stekk hér inn fyrir framsögumann, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur, Þórarinn Ingi Pétursson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Friðrik Már Sigurðsson, Hanna Katrín Friðriksson, Tómas A. Tómasson og Óli Björn Kárason.

Nefndin fékk þetta mál til sín fyrri hluta vetrar, fyrir áramót, og fengum við til okkar gesti sem sendu inn umsögn um málið. Í stuttu máli sagt gerir nefndin breytingartillögu á upphaflegu frumvarpi þess efnis að tekið verði tillit til þeirra aðstæðna sem uppi eru hér á landi hvað það varðar að þau úrræði sem hér koma fram í nefndaráliti og í frumvarpinu sjálfu varðandi förgun á þeim afurðum sem hér um ræðir, þ.e. afurðum sem fyrst og fremst heyra undir flokkana CAT1 og CAT3, þ.e. lífrænan úrgang, hvernig með það er farið, eru ekki til staðar. Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um það hvernig við tökum á því að fara að þeim samþykktum sem við höfum undirgengist sem snúa að EES-reglum og fleiru. Það er nú einu sinni svo og ég verð bara að segja það, frú forseti, að þau mál sem þessum málaflokki tilheyra eru því miður í skötulíki hvað það varðar. En hér er gerð atlaga að því að koma því til betri vegar. Við horfum til þess að farið verði að þeim reglum sem talað er um í EES-reglunum, þ.e. það sem snýr að því hvernig við söfnum þessu saman og hvernig þessu verður eytt.

Í frumvarpinu kemur fram að það eru sektarákvæði ef menn framfylgja þessu ekki. Nefndin telur mikilvægt í þessu ljósi að koma þessum lögum í gegn en við gerum það með þeim hætti að við horfum til þess að fresta ákveðnu sektarákvæði sem þetta varðar. Talað er um að fresta því um 24 mánuði frá gildistöku þessara laga. Það er í hlutarins eðli þannig að þegar við erum með svona lagasetningu þá getum við ekki farið fram með það að sekta einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög eða aðrar stofnanir þegar úrræðin eru ekki fyrir hendi. Nú gefum við okkur tíma næstu tvö árin til að koma þessu í lag, þ.e. varðandi söfnun og brennslu eða förgun á þessum úrgangi. Í frumvarpinu er að finna ákvæði um þessa söfnun, flutning, meðhöndlun og vinnslu, hvernig farga eigi afurðum dýra o.s.frv. Það sem á við hér er að við erum að tala um afurðir dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis í þessu samhengi.

Við förum í það hér að Matvælastofnun er veitt ákveðið vald á þessu sviði, valdheimildir sem hún styðst við á grundvelli annarra laga þar sem hún sinnir opinberu eftirliti, sem eru t.d. lög um matvæli og fleira. Matvælastofnun getur með þessu gripið til viðeigandi aðgerða með hliðsjón af alvarleika þeirra brota sem eiga sér stað, t.d. með því að stöðva starfsemi og annað ef menn fara ekki að þeim reglum. En ég ítreka það, frú forseti, að til þessa kemur ekki fyrr en að tveimur árum liðnum a.m.k., ætla ég að leyfa mér að segja, því að í ljósi þess sem við horfum til þá eigum við eftir að taka það samtal við matvælaframleiðendur, sveitarfélög, ríki og þær stofnanir sem þar heyra undir vegna þess að þetta gerist ekki þannig að frumframleiðendur matvæla beri einir þann kostnað sem hér er.

Við getum horft til þess að í nágrannalöndum okkar er verið að vinna eftir þessum reglum. Ég tek sem dæmi að í Finnlandi eru einungis tveir bílar sem safna saman þessum afurðum og Finnland er nú stórt land og strjálbýlt sömuleiðis. Í Noregi eru einhverjir þrír aðilar sem sjá um söfnun. Við búum nú í minna landi þó að það sé strjálbýlt og stundum torfært, en við þurfum að koma þessu á fót vegna þess að eins og staðan er í dag er það því miður þannig að þessi mál eru í ólestri.

Við alla þá framleiðslu sem hér er um rætt þá erum við að sýsla með lifandi verur og vissulega geta alltaf orðið afföll við framleiðsluna, það er alveg sama í hvaða framleiðslu það er, og þegar við höfum ekki þau úrræði sem við þurfum að hafa til þess að koma þessum afurðum í tilheyrandi farveg þá er náttúrlega farið á svig við það sem lagt er upp með. Þess vegna er mjög mikilvægt í þessu samhengi að taka fast á þessu, en við horfum vissulega til þess í nefndinni að veita ákveðið svigrúm sem að þessu snýr.

Við vinnslu málsins komu fram ábendingar frá samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélögum vítt og breitt um landið og það verður að hafa það í huga að við horfum til þess að við erum að fara að setja á fót og er verið að reyna að koma af stað líforkuveri sem verður staðsett við Eyjafjörð.

Við erum með eina brennslu hér á Suðurnesjum þar sem má t.d. farga riðuveiku fé og öðru. Við þekkjum það að undangengnum þeim riðutilfellum sem hafa komið upp undanfarin ár í Miðfjarðarhólfi og á öðrum svæðum að við höfum lent þar í vandræðum varðandi förgun á þeim gripum sem hefur því miður þurft að skera niður. En við horfum til þess að með þessu verðum við komin með þessa hluti í ákveðinn farveg. Það er algerlega óásættanlegt fyrir okkur sem skilgreinum okkur sem sem þjóð sem byggir mikið á því að framleiða matvæli, hvort sem er á sjó eða landi, að við séum ekki með þennan farveg fyrir þau matvæli sem ekki eru ætluð til manneldis að við getum komið þeim í ásættanlega förgun.

Hér eru gerðar ákveðnar breytingartillögur sem ég ætla ekki að fara yfir, þær eru að mestu leyti tæknilegs eðlis hvað þetta varðar. En ég ítreka það, frú forseti, að í þessu samhengi leggur nefndin áherslu á að farið verði í þessa vinnu. Ég minni sömuleiðis á tilkynningu sem kom frá matvælaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti fyrir ekki svo mörgum vikum síðan þar sem lagt er til að starfshópur verði skipaður í síðasta lagi 1. apríl sem taki til starfa og vinni að því að koma þessum málum í farveg og vinni síðan eftir þessu í framhaldinu.

Ég vil bara að lokum segja það að þó að nefndin tali hér um 24 mánuði frá gildistöku þessa frumvarps, þ.e. varðandi refsiákvæðin, þá beini ég því til þeirra sem verða þá við völd, hverjir sem það verða, að þeir horfi til þess að þeir hlutir verði þá að vera komnir í lag sem nefndin leggur áherslu á sem snúa að flutningi og förgun. Ef það verður ekki komið í lag verða menn að endurskoða gildistökuákvæðið um hvernig farið verður með þessa hluti því að það gengur aldrei upp að leggja til og binda í lög ákveðinn farveg þegar farvegurinn er ekki til staðar.

Frú forseti. Ég held að ég láti þetta duga í bili. Annars legg ég áherslu á það að hv. atvinnuveganefnd vann þetta samhent eins og öll önnur verk sem sú ágæta nefnd tekur sér fyrir hendur. Vissulega voru það þessi atriði — það er nú margt tæknilegs eðlis sem snýr að þessu frumvarpi, en í grundvallaratriðum er það þannig að við viljum hafa þessa hluti í lagi og að við förum að þeim reglum sem við höfum undirgengist. En ég legg áherslu á að farvegurinn til að framkvæma reglurnar þarf að vera til staðar og við förum ekki sekta matvælaframleiðendur þegar farvegurinn er ekki til staðar.