154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

dánaraðstoð.

771. mál
[12:53]
Horfa

Flm. (Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverður punktur sem hv. þm. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir kemur hér á framfæri. Ég verð að segja að sú umræða að læknar séu kannski samþykkir dánaraðstoð en vilji ekki framkvæma hana sjálfir minnir mig svolítið á umræðuna um þungunarrof á sínum tíma. Hvaða læknir vildi vera þekktur fyrir að vera þungunarrofslæknirinn, læknirinn sem drepur börn, eins og fólk vildi stundum halda fram? Ég held að þessi umræða sé kannski á þennan veg varðandi dánaraðstoð. Ég trúi því einfaldlega að það séu læknar sem eru tilbúnir að veita þessa þjónustu og ef ekki þá erum við einfaldlega að heimila það að sjúklingar megi óska eftir þessu og læknar megi veita aðstoð og það væri galið ef við ætluðum að fara í einhverja þá átt að tala um einhverjar þvingandi aðgerðir. Hér er löggjafinn einfaldlega að reyna að sinna því hlutverki að opna á möguleikann á þessu mikilvæga frelsis- og mannúðarmáli.